Hver er framtíðin í vistvænum samgöngum – Iðnaðarráðherra var á málþingi á Reyðarfirði í gær.

Þróunarfélag Austurlands stóð fyrir málþingi á Reyðarfirði í gær um vistvæna orkugjafa í samgöngum undir yfirskriftinni, hver er framtíðin. Verkefnastjóri þróunarfélagsins,  Ásta Kristín Sigurðardóttir bauð gesti velkomna á málþingið sem var í traustri fundarstjórn Páls Björgvins Guðmundssonar, bæjarstjóra Fjarðarbyggðar .
Graen bill
Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, opnaði málþingið með góðu erindi þar sem fram kom m.a. markmið stjórnvalda um að 10% af bílaflota landsins nýti visthæft eldsneyti árið 2020 – ( innskot, um 23.000 ökutæki). Ráðherra áréttaði þörf á að grípa og hagnýta tækifæri sem gefast til hagfelldra orkuskipta í samgöngum á komandi misserum og árum og til að svo megi verða sé m.a. þörf á að tengja saman störf ráðuneyta, hagsmunaaðila og rannsóknastofnanna. Og að Grænu orkunni sé meðal annars ætlað að gegna því hlutverki þar sem litið verður jafnt til allra tæknilausna sem skapað geta hagfelld tækifæri fyrir okkur Íslendinga í framtíðinni. Katrín áréttaði að allir eru velkomnir til þátttöku í störfum Grænu orkunnar og að samstarfshópar innan tæknilausna geti komið að málum verkefnastjórnar Grænu orkunnar og nefndi sem dæmi hugsanlegan klasa um framgang metanvæðingar. Jafnframt kom fram í máli ráðherra að ríki og sveitarfélög þyrftu að sýna gott fordæmi á komandi misserum og árum og stefna markvist að því að auka hlutfall visthæfra ökutækja í notkun í opinberum rekstri. 

Verkefnastjóri Grænu orkunnar, Sverrir Viðar Hauksson, sat fundinn og Jón Björn Skúlason ræddi hugmyndafræði Grænu orkunnar í ágætu erindi þar sem hann fór yfir svið tæknilausna til visthæfari samgangna sem horft er til í heiminum almennt. Jón áréttaði að ýmsar tæknilausnir séu í þróun og ljóst þyki að engin ein lausn muni henta öllum þjóðum í sama mæli og að orkukerfi til samgangna stefni í að verða með fjölbreyttari hætti í heiminum almennt í framtíðinni. Sökum þessa benti Jón á að mikilvægt væri að auk fræðslu á öllum stigum um þá valkosti sem eru í boði og munu fyrirsjáanlega verða í boði á komandi árum og áratugum.  Hann gat þess að notkun á metaneldsneyti hafi aukist mikið á höfuðborgarsvæðinu á síðustu misserum og að ökutækjum fjölgi hratt sem nýta metan í akstri. Og benti á að ný lög sem tóku gildi í janúar á þessu ári hefðu hvatt til þess að svo mætti verða. Þá ræddi hann einnig stuttlega um tímalínu annarra valkosta sem kynnu að reynast okkur hagfellt að nýta á komandi árum og nefndi í því sambandi, rafvæðingu, vetnisvæðingu og aukna notkun á lífdísil og alkahólum ( etanól og metanól).

Sigurður Ingi Friðleifsson hjá Orkusetrinu ræddi næst um leiðir til að draga úr mengun í samgöngum.  Hann benti m.a. á að þótt verð á bensíni væri á uppleið að þá væri það í raun ekki dýrt ef litið væri heildrænt á kostnað vegna framleiðslu og notkunar jarðefnaeldsneytis. Að stóra áskorunin sem blasti við í heiminum væri, hins vegar, sú að framboð á jarðefnaeldsneyti muni fyrirsjáanlega ekki anna eftirspurn eftir eldsneyti á þessari öld- að um takmarkaðar auðlindir sé að ræða.  Og jafnframt áréttaði hann að óraunhæft væri að gera ráð fyrir að visthæfara eldsneytis verði hlutfallslega mun ódýrara í framtíðinni en jarðefnaeldsneyti hefur verið til þessa. Hann benti á að næstu árin væri unnt að skapa hlutfallslega mikinn umhverfislegan ávinning með því að skipta út núverandi bensínbílum  fyrir sambærilega bíla með brunavél sem brenna mun minna af eldsneyti fyrir hvern ekinn kílómetra enda hafi átt sér stað mikil þróun á skilvirkni brunavéla á þessari öld og margt eftir að batna í þeim efnum á komandi árum.  Sigurður tilkynnti að Orkusetur muni kynna fljótlega nýja reiknivél á heimasíðu stofnunarinnar þar sem almenningi stendur til boða að bera saman valkosti til vélknúinna samgangna með heildrænni hætti en áður.

Freyr Ingólfsson  hjá Mannviti kynnti skýrsluna ,,vistvænar almenningssamgöngur“ og ræddi stuttlega um tækifæri til eldsneytisframleiðslu á Austurlandi. Hann benti meðal annars á að á svæðinu félli til um 12.000 tonn af heimilisúrgangi sem sorphirðustöðvar tækju við  á ári og vinna mætti úr því á aðra milljón normalrúmmetra ( Nm3) á ári af metaneldsneyti. Og þá eftir að skoða hvað hægt væri að safna af öðrum lífmassa s.s.  mykju, skít, taði, fiskúrgangi, heyfyrningum og ræktun á vallarfoxgrasi svo eitthvað sé nefnt. Fram kom hjá Frey að gera megi ráð fyrir að metanverksmiðja , sem nýtt gæti allan heimilisúrgang til metanframleiðslu, kosti um milljarð króna miðað við vinnslu 10.000 tonna af heimilisúrgangi- innskot, og því blasti við að slík verksmiðja kostar hlutfallslega mun minna ef um meira magn af lífrænu efni er að ræða með nýtingu á öðru hráefni en heimilisúrgangi.   

Magnús Ásgeirsson hjá N1 á sæti í verkefnastjórn Grænu orkunnar og ræddi hann um framtíðarsýn og valkosti í boði til vélknúinna samgangna. Í skemmtilegu og fróðlegu erindi kynnti hann þróun í orkunotkun í heiminum á liðinni öld og spár um minnkandi þátt jarðefnaeldsneytis á þessari öld. Fram kom hjá Magnúsi að sala á metaneldsneyti 2011 stefni í að verða meiri en sem nemur tvöfaldri notkun á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2010. Og að ökutækjum sem nýta metaneldsneyti hafi fjölgað hratt á höfuðborgarsvæðinu á síðustu misserum. Í umræðu sem skapaðist um fjölda ökutækja sem nýta metaneldsneyti á höfuðborgarsvæðinu í dag kom fram sú tilgáta að eldsneytissalan hefði átt að aukast meira ef ökutækjum hefur fjölgað úr 120 í júlí 2010 í 600 ökutæki í júlí 2011.  Á það var bent að fjöldi strætisvagna og sorphirðubíla væri sá sami á þessu ári og í fyrra og því væri fjöldi ökutækja í notkun, annars vegar, og eldsneytissala, hins vegar, ekki mælikvarði á það hvort metanbílaeigendur ækju mestmegnis á metani í Reykjavík eða ekki. Og áréttað var að öll teikn séu um að eigendur metan/bensínbíla aki mestmegnis á metani á höfuðborgarsvæðinu enda hafi eldsneytisnotkunin á árinu 2010 munið uppreiknað um 450 meðal fólksbílaígildum og salan komin í um 1000 fólksbílaígildi í júlí 2011 – ergo; mjög gott samræmi er milli fjölda fólksbílaígilda og eldsneytissölu eða ríflega tvöföldun í báðum tilfellum milli júlímánaða 2010 og 2011 eins og fram kom í erindi Magnúsar ( 1000/450 = 2,22).  
 

Hlífar Þorsteinsson hjá Austfjarðarleiðum fjallaði í skemmtilegu erindi um sögu og umhverfisstefnu fyrirtækisins og markmið um að bjóða eins og kostur er upp á umhverfisvænstu hópferðasamgöngur sem völ er á. Hann áréttaði mikilvægi þess að lífdísilolía sem kæmi á markað yrði vottuð og eiginleikar hennar nákvæmlega skilgreindir enda gæti það verið dýrt spaug að láta olíur á nýjustu vélarnar sem uppfylltu ekki kröfur framleiðenda. Hlífar gerði að umtalefni að svo virtist sem stjórnvöld hefðu ekki gert mikið í að fylgja eftir ákvæðum um EURO-staðla gagnvart útblæstri  stærri ökutækja og vonaðist til að í þeim efnum væri breytinga að vænta.
Graen spor
Guðmundir Sveinsson hjá Alcoa ræddi um stefnu fyrirtækisins varðandi vistvæna orkugjafa og mikinn áhuga innan fyrirtækisins fyrir því að draga verulega úr notkun á jarðefnaeldsneyti í rekstrinum, en notkun Alcoa í dag spannar 500-550 þúsund lítra á ári sem skapi losun á um 1400 tonnum af jarðefna-CO2 á ári.  Hann gat þess að það hafi komið til tals meðal álfyrirtækja í landinu að gera sameiginlega átak í þessum málum. Og að öðru leiti sé það stefna fyrirtækisins að haga rekstri sínum í eins mikilli sátt við umhverfið og kostur er.

Þróunarfélag Austurlands á þakkir skyldar fyrir framtakið sem og iðnaðarráðherra sérstaklega fyrir að mæta á Reyðarfjörð og fylgja eftir verkefnum Grænu orkunnar þótt mikið hafi verið að gera hjá henni þennan dag eins fram kom í Kastljósi um kvöldi varðandi málefni Byggðastofnunar. 


Nú blasir við skemmtileg vinna á Austurlandi við að stilla saman strengi í fjórðungnum og leita hagfelldustu leiða til að stíga markviss heillaspor í átt að visthæfari samgöngum á Austurlandi - vinna sem getur leitt til fjölgunar grænna starfa og aukins orkuöryggis í fjórðungnum og styrkt verulega alla ferðþjónustu á Austurlandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einar Vilhjálmsson

Höfundur

Einar Vilhjálmsson
Einar Vilhjálmsson

Mottó: Efling hins megnuga sjálfs.                   
e.vilhjálmsson@gmail.com
S. 786-1020
Mannskepnan er mögnuð vera, man í sanskrít merkir hugur. Læt það versta alveg vera, veit þá mér ei brestur dugur. 081008

Nýjustu myndir

  • Mynd sem breytti Vietnamstríðinu
  • kim phuc phan thi 1 0f7e31f4825f4b6395b37744b3cc3264
  • 52419989986 32debd4cfa k (1)
  • 100 metan
  • Þrautseigja Shutterstock 613401872

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband