3.10.2009 | 16:24
Innilegustu þakkir til forseta Íslands , Hr. Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrir fund um metanvæðingu og orkuskipti í íslenskum samgöngum.
Þriðjudaginn 29. september sat ég fund með forseta Íslands, Hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, ásamt Birni H Halldórssyni framkvæmdastjóra Metans hf og Árna Sigurjónssyni , skrifstofustjóra. Tilefni fundarins var löngun forsetans til að fræðast um stöðu metanframleiðslu í landinu og mögulegn þátt metans í orkuskiptum þjóðarinnar úr jarðefnaeldsneyti í umhverfisvænt eldsneyti.
Aðdragandi fundarboðsins var sá að ég hringdi á skrifstofu forsetans og átti samtal við Árna vegna ræðu forsetans á nýlokinni ráðstefnu um umhverfisvænar og sjálfbærar samgöngur sem haldin var á Hilton hótelinu í Reykjavík dagana 14-16 september. Ræðan endurspeglaði ekki þá sýn sem blasir við mér um hagfelldustu áherslur í orkuskiptum þjóðarinnar að teknu tilliti til heildar hagsmuna þjóðarinnar í dag og til framtíðar litið. Þessa skoðun lét ég í ljós í samtali við Árna sem tók erindi mínu vel. Árni tók málið upp við forsetann sama dag og ósk minni um fund var svarað með jákvæðum hætti nokkrum dögum síðar. Innilegustu þakki fyrir það.
Fundurinn varð lengri en ég átti von á, um 80 mínútur, og borið fram kaffi og pönnukökur með sykri . Andinn á Bessastöðum var hinn besti og stundin með forsetanum dýrmæt enda atgervi hans mikið á ýmsum sviðum eins og þjóðin hefur margoft kynnst. Eftir stutt almennt spjall gat forsetinn þess að hann óskaði eftir að heyra um stöðu metanmála í landinu almennt og jafnframt um okkar sýn á aðra valkosti í boði til orkuskipta í samgöngum. Björn H. Halldórsson fjallaði um sögu Metan hf og þau heillaspor sem stigin hafa verið frá stofnun fyrirtækisins fyrir 10 árum. Björn er einnig framkvæmdastjóri SORPU bs. og varpaði góðu ljósi á þá dýrmætu eign þjóðarinnar að búa yfir þekkingu og getu til að framleiða umhverfisvænt eldsneyti í hæsta gæðaflokki úr öllu lífrænu efni .
Í kynningu Björns kom skýrt fram að framleiðsla okkar á metani með söfnun á hauggasi frá urðunarstað á Álfsnesi er aðeins lítið brot af því sem unnt er að framleiða í landinu og því til áréttingar nefndi hann sem dæmi að með ræktun á orkuplöntum á 3% af auðnum landsins mætti afla lífmassa sem nægði til framleiðslu á metani fyrir allan bílaflota landsmanna, um 250.000 ökutæki. Einnig kom fram á fundinum að sambærilegt magn af lífmassa mætti fá af 8% af ræktuðu landi og það nefnt í því samhengi að efla mætti stórlega stöðu landbúnaðar með þessum hætti. Forsetinn gat þess að Evrópuríkin væru sérstaklega vinveitt atvinnuuppbyggingu er liti að umhverfismálum, ræktun lands og sjálfbærni. Jafnframt kynnti Björn, frumkvöðlastarf SORPU við uppbyggingu á metanverksmiðjunni á Álfsnesi og þá staðreynd að verksmiðjan er fyrst sinnar gerðar í heiminum sem framleiðir ökutækjaeldsneyti úr hauggasi. Og að verksmiðjan sé byggð eftir íslensku hugviti og að mestu smíðuð í landinu. Flestar þjóðir sem nýta hauggas frá urðunarstöðum nota það til húshitunar og/eða rafmagnsframleiðslu en slík notkun hér á landi er ekki ábatasöm sökum okkar einstöku auðlinda í formi hitaveitna og fallvatnsvirkjana.
Þá var komið að umræðunni um orkuskiptin í samgöngum og aðra valkosti í boði sem forsetinn óskaði eftir að við ræddum. Björn áréttaði að hann legði fyrst og fremst áherslu á að kynna þá starfsemi sem SORPA og Metan stæðu fyrir án þess að tíunda frekar hugsanlega galla á öðru leiðarvali. Mér var ljóst að forsetinn vissi að ég hafði tjáð mig opinberlega um sýn sem stangaðist á við fyrrnefnda ræðu hans og mér ljóst að forsetanum hugnaðist að fá að heyr brot að þeirri sýn sem mér fannst hafa orðið útundan í ræðu hans. Ég tók því til máls á þeim nótum og fór vítt yfir sviðið án þess að hugsa til ræðu forsetans sérstaklega enda úr miklu að moða eftir samskipti við marga innan stjórnsýslunnar sem koma að málaflokki orkuskipta í landinu og móta með einum eða öðrum hætti leiðarval og áherslur í málaflokknum.
Áherslurnar mun blogga um síðar en vil þó deila því hér að á einum tímapunkti þótti forsetaritara ástæða til að bregðast við málflutningi mínum en forsetinn rétti þá upp hönd sína og sagði; ,, þetta er allt í lagi ´´ . Við svo búið hélt ég áfram og kláraði mál mitt skömmu síðar. Það ríkti þögn í langan tíma að mér fannst. Forsetaritari, sagði nokkur orð sem túlka mátti á þann veg að honum hafi þótt sem um predikun væri að ræða . Viðbrögð forsetans voru þægileg; ,, Já - já, já ´´.
Forsetinn gat þess að hann hafði ekki haft vitneskju um hversu langt við Íslendingar erum komnir í þróun á þekkingu og getu til að framleiða metan eldsneyti og lýsti áhuga á að heimsækja SORPU og Metan í þessum mánuði. Fyrir mér var það mikill léttir að vita að forsetinn, rétt eins og fjöldi opinberra starfsamanna, hafi einfaldlega ekki gert sér grein fyrir þekkingu og aðgerðarhæfi þjóðarinnar í þessum málaflokki. Og þar með hvarf úr huga mínum sá mínus sem þar var vegna ræðu forsetans á ráðstefnunni um umhverfisvænar og sjálfbærar samgöngur.
Innilegustu þakkir til forseta Íslands, Hr. Ólafs Ragnars Grímssonar , og Árna Sigurjónssonar, forsetaritara.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:32 | Facebook
Um bloggið
Einar Vilhjálmsson
Nýjustu færslur
- Er bensínbílum að fjölga hlutfallslega séð? Fátt er svo með ö...
- Hryllingur stríðs - hefur aukið áreiti og gagnsæi deift tilfi...
- VEL GERT SORPA - heimsklassa framleiðsla á metaneldsneyti úr ...
- 2024 Til lukku með nýtt almanaks- og bætingaár - stöðugt hærr...
- Metan er málið og hefur blasað við um áratuga skeið - og börn...
Athugasemdir
Nú lendir þú örugglega á svartalistanum hjá sumum! Mogga bloggarar sumir sofa ekki vegna haturs síns á Ólafi, þannig að það borgar sig ekki að láta hann njóta sannmælis hér!
Auðun Gíslason, 3.10.2009 kl. 16:41
Einar ég vil bara þakka þér fyrir þína eljusemi í því að koma þessum málum á framfæri. Ef einhverntíman var þörf að skipta yfir í íslenska orku á bílaflotann, þá er það núna. Ríkið ætti að bíða með framkvæmdir eins og hátæknisjúkrahús tónlistarhöll og annað í þeim dúr, en snúa sér frekar að því að byggja upp orkustöðvar um landið og styrkja bíleigendur í að breyta bílunum sínum.
Þegar við erum svo orðin sjálfbær í framleiðslu á okkar eigin eldsneyti, þá þurfum við ekki á ags að halda. Við spörkum honum út í hafsauga, segjum bless við esb og verðum aftur sjálfstæð þjóð.
kveðja Rafn.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 4.10.2009 kl. 03:26
Einar! Ég er maður, sem hef lítið, já, ekkert vit á þeim málaflokki, sem þú heldur á lofti. En ég hef lesið nokkra af pistlum þínum og finn ekki annað en að þú talir af rækhyggju og viti. Ég vil því nota tækifærið eftir að hafa lesið þinn frábæra pistil um fundinn með Ólafi Ragnari, og óska þér til hamingju með það góða starf sem þú og samstarsfólk þitt er að inna af hendi. Ég tek ekki jafn sterkt í árinni og Rafn hér að ofan, en er þó sannfærður um að orkuskipti á bílaflota landsmanna mun gera meira en margt annað til að koma okkur úr þeim vanda sem við blasir.
Gangi þér allt í haginn, Einar!
Kær kveðja,
Jakob S. Jónsson, Svíþjóð.
Jakob Jónsson (IP-tala skráð) 4.10.2009 kl. 07:11
Frábært Einar og félagar!
Það er svo merkilegt með notkun á metani á bíla að hún hefur TVISVAR jákvæð áhrif á umhverfið. Fyrst þegar metanið er gripið áður en það svífur út í andrúmsloftið á ruslahaugunum og síðan AFTUR þegar metanið er nýtt á bíl í stað olíu/bensíns og losar okkur þannig við að senda bensíngufur út í andrúmsloftið.
Íslendingar eru að vinna að nokkrum verkefnum sem geta skipt sköpum á heimsvísu þegar kemur að umhverfismálum.
1. CarbFix verkefninu sem gengur út á að breyta koltvíoxíði í grjót og geyma það þannig neðanjarðar á umhverfisvænan hátt (www.carbfix.is);
2. Djúpboranirnar sem ganga út á að bora á jarðvarmasvæðum 4-5 km djúpar borholur í stað 1-2 km í dag og fá jafnvel allt að tífalda orku úr hverri holu.
3. Þriðja verkefnið er síðan metanverkefnið sem gæti haft verulega hnattræn áhrif þar sem hvorki er skortur á bílum í heiminum né rusli (eldsneyti).
Þjóð sem lagt getur fram jafn merkilega hluti til lífsgæða 21. aldarinnar á heimsvísu þarf ekki að óttast framtíðina.
Baráttukveðjur!
Sigurður Viktor Úlfarsson, 4.10.2009 kl. 13:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.