2.7.2013 | 12:06
Listamannalaun hvað? Er einhver spurning um það hvort við eigum að tryggja endurgjald í landinu fyrir sköpun menningarverðmæta?
Borið hefur á óþoli í samfélaginu vegna greiðslu listamannalauna. Flestum ber okkur saman um að laun er endurgjald fyrir framlag af einhverjum toga. Vinnuframlag er orð sem flestir telja sig geta dæmt um hvort sé mikið eða lítið, þarft eða óþarft og hvort endurgjald sé eðlilegt eða ekki. Fyrir eihverja hluta sakir hefur orðið list á stundum tengst neikvæðri umræðu - að tíma, starfskröftum og fjármagni sé varla vel varið á slíkum vettvangi . Hvernig má það vera? Margir hafa bent á að námsgreinum, sem auðkenndar eru með tilvísun í listir, sé ekki gert hátt undir höfði í vestrænu skólakerfi almennt- í besta falli boðið upp á slík fög sem valgrein. Hvernig getur staðið á því? Var það ekki Piccaso sem sagði að skapandi hugsun byggi í öllum börnum og að kúnstin væri að komast hjá því að umhverfi barnanna næði að bæla hæfileikana niður. Getur verið að í skólakerfinu hafi það gerst? Og óvart? Það að bjóða upp á eitthvað fag með óaðlaðandi hætti getur verið vísir að bælingu hæfileika. Er þess gætt að frumkvæði og skapandi hugsun fái notið sín?
List hefur reynst erfitt að skilgreina svo öllum líki. Mörgum ber saman um að list sé orð sem fangi í mörgum tilfellum afrakstur skapandi hugsunar. Er það ekki svo að list er orð sem mest er notað af þeim sem upplifa sköpun/verk annarra. Og þá með þeim hætti að þeim þykir við hæfi að nefna afraksturinn list og gerandann listamann. Einhver orðaði það þannig að listin væri í auga sjáandans. Ef listin er í auga sjáandans, er þá ekki ljóst að afrakstur hinnar skapandi hugsunar þarf að vera öðrum mönnum aðgengilegur í einhverju formi og móttækilegur í einhverjum skilningi. Væntanlega er með ofangreindri tilvísun í sjáanda ekki átt við að viðkomandi þurfi einungis að hafa sjón til að geta upplifað list, notið hennar og nýtt sér til göfgunar. Getur verið að þörfin fyrir skapandi hugsun sé ekki síður hjá sjáandanum en þeim sem afrakstrinum skilaði þegar að því kemur að sjáandinn veiti umsögn eða dóm um það hvort um list sé að ræða eða ekki í hans huga?
Orðið maður er dregið af sanskrítarrótinni man sem merkir hugur. Skilningur okkar mannanna á umhverfi okkar og náttúru hefur löngum verið sá að maðurinn sé eina lífveran á jörðinni sem gædd er hugsun - allt um það. Ástæða er þó til að ætla að manninum hugnist vel að samþykkja tilgátuna um að maðurinn geti einnig gert margt áhrifaríkt án þess að hugsa. Reyndar eigum við því flest að venjast að umræða um hugsunarleysi tengist óförum eða mistökum af einhverjum toga; ætlaði að hugsa en hætti við en hélt svo áfram að tala. Í umræðu um list eða ekki list er gjarnan sett vigt á að afraksturinn endurspegli skapandi hugsun, færni, fegurð eða ögrun að mati sjáandans svo nokkuð sé nefnt.
Gjörðir mannsins hafa í tímans rás verið flokkaðar með vísan til hugsunar með ýmsum hætti og í margvíslegum tilgangi. Dómstólar leggja mikið upp úr því hvort hugur sakbornings vísi til ásetningis, gáleysis eða óviljaverks. Orðin, skapandi hugsun, er viðbúið að beri helst á góma fyrir dómstólum ef grunur leikur á að geðheilsu sakbornings sé ábótavant. Þegar kemur að dómi sjáandans um list eða ekki list gerir sjáandinn líkast til ekki að kröfu að vita fyrir víst hvort afraksturinn sem hann er að njóta/greina/dæma sé til kominn vegna ásetningis, gáleysis eða óviljaverks. Taka tvö fyrir fyrstu upplifun er ekki til. Víða má sjá manninn horfa á listaverk með fálátlegu fasi , ganga svo nær verkinu og koma til baka uppnuminn. Jú jú, nafnið, sleppum því hér og nú.
Er það ekki svo, að við skilgreinum flest af helstu manngerðu djásnum þjóðarinnar með ýmsum viðskeytum við orðið list? Ber ekki öllum saman um að Snorra Edda sé í flokki einstakra ritlistaverka í heiminum og eitt af helstu manngerðu gersemum þjóðarinnar? Endurgjald listamanna til forna var verulegt og endurspeglaði gildi menningarverðmæta hjá sjáendum þess tíma. Fólust ekki ein af afdrifaríkustu mistökum Napóleons í að ræna listaverkum annarra Evrópuþjóða sem reyndist Frökkum dýrkeypt. Getur verið að í okkar samfélagi séu full margir að borgast með skilningsleysi á gildi lista sem endurspeglast m.a. í andstöðu við opinbert endurgjad fyrir sköpun menningarverðmæta. Eða er krafan sú að þau verði bara til einhvernveginn? Orðið listamannalaun er mun yngra en orðið list og ber fyrst á góma þegar öllum bar saman um að einstakir hæfileikar í samfélaginu voru þess eðlis að sómi þjóðarinnar lá við að tryggja tækifæri til að rækta hæfileikana frekar. Getur verið að með tímanum hafi þjóðin hætt að skilja og skynja dýrmæti skapandi hugsunar og verka sem orðinu list er ætlað að fanga?
Jæja, þá ég er búinn að fá ágætis útrás fyrir undrun mína í dag yfir umræðunni um það hvort þjóðin eigi að halda áfram að tryggja hæfileikaríkum einstaklingum endurgjald fyrir verulegt framlag sitt til sköpunar menningarverðmæta. Við ættum að stórauka opinbert endurgjad á listasviðinu ef eitthvað er. Endurgjald til listamanna er og hefur verið skammarlega lágt. Við eigum að gera enn betur en við höfum gert til þessa og hafa vit á því að rífa ekki niður það sem vel hefur gefist. Nýjum viðfangsefnum á listasviðum þurfum við einfaldlega að bæta við það sem þegar er gert og skapa stóraukin tækifæri í samfélaginu til að rækta skapandi hugsun og efla þróun og nýsköpun á öllum sviðum í landinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.7.2013 kl. 12:46 | Facebook
Um bloggið
Einar Vilhjálmsson
Nýjustu færslur
- Er bensínbílum að fjölga hlutfallslega séð? Fátt er svo með ö...
- Hryllingur stríðs - hefur aukið áreiti og gagnsæi deift tilfi...
- VEL GERT SORPA - heimsklassa framleiðsla á metaneldsneyti úr ...
- 2024 Til lukku með nýtt almanaks- og bætingaár - stöðugt hærr...
- Metan er málið og hefur blasað við um áratuga skeið - og börn...
Athugasemdir
Takk fyrir þessa góðu grein, ég tók mér bessaleyfi og deildi henni á fasbókarsíðu minni.
Kveðja: Soffía Auður
Soffía Auður Birgisdóttir (IP-tala skráð) 4.7.2013 kl. 11:46
Já sæll. Þetta er hverju orði sannara, auðvitað borgum við listamannalaun.
Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 4.7.2013 kl. 14:23
Þakka þér fyrir, þetta eru sannarlega orð í tíma töluð og mig finnst greinin það góð að ég deildi henni á fésbókina
Kveðja Erla Melsteð
Erla Ó. Melsteð (IP-tala skráð) 5.7.2013 kl. 02:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.