Lífeldsneyti sem jafngildir 47% af bensínnotkun í landinu 2010 má framleiða úr hráefni af túnum sem eru ónotuð í dag – og þá ónefndir fjölmargir aðrir framleiðslumöguleikar s.s úr lífrænum úrgangi frá heimilum og atvinnustarfsemi í landinu.

Samkvæmt gögnum frá Jóni Guðmundssyni hjá Landbúnaðarháskóla Íslands eru um 50.000 hektarar túna ónotaðir í landinu í dag. Með ræktun á vallarfoxgrasi á þessum túnum mætti afla hráefnis til framleiðslu á lífeldsneyti svo nemi að orkuinnihaldi um 87,5 milljónum lítra af lífeldsneyti sem jafngildir um 47% af orkuþörf bensínbílaflotans í landinu á árinu 2010  eða um 28% af samanlagðri orkunotkun bílaflotans á bensín og dísilolíu í landinu 2010 ( sjá útreikning að neðan)¹. 

Þar sem nærri lætur að 35% af dæluverði bensíns sé kostnaður í erlendri mynt í dag og dæluverðið  246kr/L samsvara þessar tölur því að um 7,5 milljarðar sparast  í erlendri mynt á ári við orkuskipti í þessu magni ( 246 kr/L * 0,35 * 87,5 milljó L) . Þá eru umhverfisáhrifin engu minna spennandi þar sem við spörum að brenna jarðefnaeldsneyti sem nemur minni losun á jarðefnakolefni út í lofthjúp jarðar sem samsvarar um 200.000 tonnum af jarðefna-CO2-ígildi á ári (2,325 kg CO2 /L  * 87,5 milljó L). Við bruna á lífeldsneyti losnar ekkert jarðefna-CO2-ígildi út í andrúmsloftið. Þá eru ónefnd þau jákvæðu efnahagslegu áhrif sem aukin framleiðsla og velta víða í samfélgi okkar hefur á lífskjör í landinu.

Lifeldsneyti 1.3.1. Aukin sjálfbærni3 EV 12 2011Athugið að hér er bara verið að skoða hvað hægt væri að gera með nýtingu á túnum sem standa ónotuð í dag.  Fregnir herma jafnframt, að um 75% að ræktanlegu landi í landinu hafi þjóðin aldrei nýtt til ræktunar. Tæknilega getum við nýtt þetta land og fyrirstaðan hlutfallslega lítil miðað við margt af því sem viðhafa þarf í sambærilegum tilgangi víða um heim.

Til útskýringar á forsendum talna:
Hektari er flatamálseining sem spannar 100x100m (10.000 m2) sem samsvarar um tveimur fótboltavöllum. Samkvæmt kynningu Jóns Guðmundssonar við Landbúnaðarháskóla Íslands ( sjá kynningu neðan) gæti ræktun á vallarfoxgrasi á Íslandi skilað um 6,5 tonnum af þurrefni á hektara ( 6,5 tdw/ha) eða orku sem svarar til 1,2-1,6 tonna af jarðefnaeldsneyti á hektara. Af einum hektara mætti sem sé framleiða lífeldsneyti sem jafngildir um 1750 lítrum af jarðefnaeldsneyti.

¹ Útreikningur á framleiðslugetu á lífeldsneyti úr lífmassa frá einum hektara túns:  
Þyngd á eldsneyti 1,4 tonn (miðgildi) = 1400 kg/hektara
Eðlisþyngd jarðefnaeldsneytis að meðaltali er um  0,8 kg/L. 
Af því leiðir að 1,400 kg /ha deilt með  0,8kg/L =  1400/ 0,8 = 1750L/ha af jafngildi jarðefnaeldsneytis.
Fjöldi hektara af ónotuðum túnum í landinu = 50.000 ha
Lítrafjöldinn af jarðefnaeldsneyti sem unnt væri að draga úr notkun á með framleiðslu á lífeldsneyti úr hráefni af þessum túnum er því  50.000 ha * 1750L/ha = 87.5 milljónir L 

Samkvæmt upplýsingum frá Orkusetri í dag brenndi bílafloti okkar Íslendinga um 254 þúsund tonnum á jarðefnaeldsneyti á árinu 2010 (þar af 148 þús. tonnum af bensín og 106 þús. tonnum af olíu)  Eða um  317.500.000 L af jarðefnaeldsneyti á árinu 2010 (254.000.000 kg af jarðefnaeldsneyti / 0,8kg/L)  . Ofangreind framleiðsla á lífeldsneyti ( 87,5 milljón L) næmi því um 27,7% af eldsneytisnotkun bílaflotans í landinu 2010 (87.500.000 L / 317.500.000 L = 0,277).  Ef lífeldsneytið væri eingöngu nýtt í stað bensíns (eðlisþyngd um 0,738) næmi framleiðslan um 47% af bensínnotkun í landinu á árinu 2010 ( 148.000.000 kg af bensíni / 0,738 kg/L  = 200.000.000 L af bensíni og deilum svo þeirri tölu upp í  94.850.949 L af lífeldsneyti og fáum um 47%  (94.850.949L/200.000.000L = 0.474 eða um 47%.)

Gáum einnig að því að við framleiðslu á lífeldsneyti út vallarfoxgrasi fellur til næringarríkt hrat (áburður) sem nýta má til frekari ræktunar á vallarfoxgrasi eða öðrum orkuplöntum (repju) eða til uppgræðslu lands. Og höfum það jafnftramt í huga að við þetta bætist möguleg nýting á öllum úrgangi sem til fellur frá heimilum og atvinnustarfsemi í landinu auk möguleika á að auka nýtingu á ræktanlegu landi sem aldrei hefur verið ræktað áður.

Ég gerði að umtalsefni í bloggi mínu nýverið að mér þætti óheppilegt að rekast á texta í skýrslu Grænu orkunnar sem gerði lítið út tækifærum þjóðarinnar til að nýta tiltekið lífeldsneyti (nútíma-metan) í samgöngum. Ofangreind tækifæri er ein ástæða þess að ég gerði, í góðum anda, aðfinnslu við þann texta skýrslunnar. (hér)

Já , við eru sannarlega ríkari en margir hafa gert sér grein fyrir.  Rík af tækifærum til að tryggja farsæla framvindu þjóðarinnar í samgöngum. Og gott betur en það, tryggja enn frekar orkuöryggi þjóðarinnar með umhverfisvænum og samfélagslega ábyrgum hætti. Það er okkar að nýta tækifærin á okkar vakt.

Stoðefni og mikinn fróðleik er að finna undir tenglunum að neðan:

  • Möguleikar í ræktun orkuplantna á Íslandi - Jón Guðmundsson Landbúnaðarháskóla Íslands 2010 - sjá hér
  • Ný heimasíða í vinnslu um rannsóknarverkefnið Lífeldsneyti 2011 - sjá hér
  • Biofuel production in Iceland ,,Survey of potential raw materials and yields to 2030“ Verkfræðistofan Mannvit, drög að skýrslu  15 október 2010 – sjá hér  
  • Skýrsla nefndar um landnotkun - Febrúar 2010 – sjá hér

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góður pistill, takk fyrir hann.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 1.2.2012 kl. 02:33

2 identicon

Þú nefnir bara brúttótekjurnar af eldsneytisframleiðslunni en sleppir tilkostnaðinum við hana. Eldsneytiskostnaður,vélakostnaður,áburður,plast og fl.  (kostar allt beinharðan gjaldeyri)       Það má vel vera að þetta sé athugandi en það verður a.m.k að taka tilkostnaðinn með.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 1.2.2012 kl. 07:34

3 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Afar áhugavert, en hvað með tilkostnað?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 1.2.2012 kl. 08:44

4 Smámynd: Einar Vilhjálmsson

Takk Guðrún, Bjarni og Heimir.  ég ræði ekkert um tekjur og kostnað í pistlinum, enda efni í nokkra pistla hið minnsta.   Ég varpa ljósi í grófum dráttum á gjaldeyrissparnaðinn sem minni innflutningur á jarðefnaeldsneyti hefur í för með sér. Þegar við ræðum rekstrarumhverfi orkukerfisskipta í landinu er að mörgu að hyggja, mikið rétt, og ljóst að allar breytingar í landinu til aukinnar sjálfbærni í samgöngum munu kalla á framkvæmdir, útgjöld og getu til að greiða fyrir vörur (hið minnsta) í erlendri mynt. Lífeldsneytið sem við getum framleitt í landinu nýtist á ökutæki og vinnuvélar í landinu þannig að við erum ekki að horfa á þörf á að bíða eftir að eigendur fargi tækjum sínum. Og getum lagt grunn að gjaldeyrissparnaði án nýrra ökutækja. Í samanburði tæknilausna sem horft er til að auka notkun á í heiminum, er gjaldeyriskostnaður (stofnkostnaður) ökutækja sem styðjast við lífeldsneyti hlutfallslega mjög hagfelldur. Og svo miklu munar í stofnkostnaði ökutækja að mismunatalan dugar vel til uppbyggingar á framleiðslueiningum og grunn dreifikerfi.

Bjarni, þú nefnir áburð og þörf fyrir notkun á gjaldeyri  sem er staða þjóðarinnar í dag, en á móti kemur fram í pistlinum að hliðarafar lífeldsneytisframleiðslunnar  er næringarríkt hrat sem náist til uppgræðslu (jarðvegsbætir, áburður) og viðhaft er víða um heim. Viðbúið þó að aukin ræktun kalli á aukna notkun á hefðbundnum áburði en hlutfallslega séð þó  í mun minna mæli á hektara fyrir ræktun á orkuplöntum þar sem hratið nýtist sem jarðvegsbætir eins og fyrr greindi. Aukin landnot breyta einnig rekstrarforsendum fyrir mögulega áburðarverksmiðju í landinu að nýju sem er önnur spennandi ella.  Að lokum í dag, er rétt að minna á að í umræðu um rekstrarforsendur, tekjur, kostað og framlegð í málaflokki orkukerfisskipta þarf að hafa í huga heildarmyndina – umhverfislegan, efnahagslegan og félagslegan ávinning. Og missa aldrei sjónar á þeirri staðreynd að breytingar á orkukerfi til samgangna eru fyrirsjáanlegar á okkar vakt og enginn ágreiningur um það. Í því samhengi gæti verið óvitlaust að hefja umræðu um tölur með því að skoða sviðsmyndir um kostnaðinn fyrir samfélagið ef við gerum ekki neitt með samtakamætti og að eigin frumkvæði. 

Einar Vilhjálmsson, 1.2.2012 kl. 13:50

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

ótrúlega spennandi.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 1.2.2012 kl. 14:25

6 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Það væri líka hægt að framleið um það bil 5 þúsund tonn dýrindis kjöti með þessum sömu túnum eða 50 þúsund tonn af byggi eða öðrum kornvörum.

Við fluttum inn 700 tonn af kjöti fyrir 611 miljónir árið 2010.

Við fluttum inn 89 þúsund tonn af korni og kornvörum fyrir 8 þúsund miljónir ISK árið 2010.

http://www.hagstofa.is/Hagtolur/Utanrikisverslun

Guðmundur Jónsson, 1.2.2012 kl. 14:43

7 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Hey kostar um 16 kr/kg í dag . þannig að ef við fáum 6500 kg /ha af heyi og svo 1750 l af biodiesel úr því þá er þurrefniskostnaðurinn ca 60 kr/l svo kemur vinnslu kostnaðurinn sem gæti verið annað eins.

Þannig að stærðargráðan á framleiðslukostn er 120 kr/l það er ekki svo slæmt.

Sigurjón Jónsson, 1.2.2012 kl. 15:10

8 Smámynd: Einar Vilhjálmsson

Takk fyrir innleggin.  Guðmundur: Aukin próteinframleiðsla í íslenskum  landbúnaði er vissulega valkostur sem gera má ráð fyrir að verði enn meira aðkallandi síðar á öldinni en í dag og ekki slæmt innan þeirrar sviðsmyndar að hafa getað tryggt blómlega búsetu víða um land með ræktun lands og framleiðslu á lífeldsneyti á dreifðum bújörðum landsins.  Skapist aðstæður á mörkuðum þannig að mun hagfelldara verður að sinna búfjárrækt og draga úr ræktun á orkuplöntum er viðbúið að tilfærslan  verði hlutfallslega mun skilvirkari og hagkvæmari í landi með blómlegu mannlífi til sveita og fólki sem kann til búverka.  Tilgátan um að þróun á markaði matvælaframleiðslu og tæknilausna til samgangna eigi samleið í heiminum í þessum skilningi, er ekki sú vitlausasta sem ég hef rekist á. Að með hverjum áratuginum sem líður aukist kallið eftir nýtingu ræktanlegs lands til matvælaframleiðslu og samhliða aukist hlutfallsleg hagfelldni þess að innleiða aðrar tæknilausnir sem styðjast ekki við notkun á lífeldsneyti.  Sigurjón:  

Takk fyrir tölurnar Sigurjón og hugsum til þess hver líkleg þróun á kostnaði jarðefnaeldsneytis muni verða næstu árin og áratugina – hvað lífeldsneyti megi í raun kosta í smásölu til að skapa notendum rekstrarlegan ávinning. Þar fyrir utan búa fjölmargar þjóðir yfir ögn meiri umhverfisvitund en við Íslendingar og eru fúsir að greiða sama verð fyrir lífeldsneyti og jarðefnaeldsneyti ef ekki meira til að tryggja farsæla og hraða framvindu mála.

Einar Vilhjálmsson, 1.2.2012 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einar Vilhjálmsson

Höfundur

Einar Vilhjálmsson
Einar Vilhjálmsson

Mottó: Efling hins megnuga sjálfs.                   
e.vilhjálmsson@gmail.com
S. 786-1020
Mannskepnan er mögnuð vera, man í sanskrít merkir hugur. Læt það versta alveg vera, veit þá mér ei brestur dugur. 081008

Nýjustu myndir

  • Mynd sem breytti Vietnamstríðinu
  • kim phuc phan thi 1 0f7e31f4825f4b6395b37744b3cc3264
  • 52419989986 32debd4cfa k (1)
  • 100 metan
  • Þrautseigja Shutterstock 613401872

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband