23.4.2011 | 19:34
Metanvæðingin er á fullri ferð og engar smá fréttir á metan.is
Eins og ég hef örlítið bloggað um þá eigum við Íslendingar mikil og góð tækifæri til að auka stjálfbærni okkar þegar kemur að nýtingu á orkukerfi til að viðhafa vélknúnar samgöngur af ýmsum toga. Með aukinni notkun á orkukerfi ökutækja sem byggir að stærstum hluta á metangeymi sem kostar 30-50 þúsund í gjaldeyri annars vegar og íslensku metaneldsneyti hins vegar getum við stóraukið orku-og samgöngusjálfstæði þjóðarinnar með efnahagslega hagfelldum hætti.
Á stuttum tíma hefur átt sér stað mikil vitundarvakning í landinu um þau tækifæri sem við eigum sameiginlega til að skapa okkur mikinn umhverfislegan, rekstrarkostnaðarlegan og þjóðhagslegan ávinning í samgöngum okkar með aukinni metanvæðingu og svo komið að fyrri áformum um aukna metanframleiðslu í landinu þarf að hraða til muna ef okkur á að takast að mæta þeim veldisvexti í eftirspurn eftir íslensku metani sem hefur átt sér stað og við blasir á komandi misserum og árum.
Við erum ríkari en við höfum gert okkur grein fyrir í þessum efnum og höfum fengið í fangið það ,,lúxusverkefni" að leita leiða til að auka atvinnusköpun í landinu með hagfelldri framleiðslu á íslensku metani sem borðleggjandi er að mun nýtast í samgöngum þjóðarinnar í nútíð og framtíð.
Á heimasíðu Metan hf - er að finna stórfréttir fyrir marga og jákvæð skilaboð til þjóðarinnar um tækifæri sem best verð nýtt með skilvirku samstarfi ríkisins, sveitarfélaga og atvinnulífsins. Þjóðinni þarf að lánast að hefjast handa á þessu ári og skilgreina sameiginleg verkefni á svið metanframleiðslu í landinu. Tillaga til þingsályktunar um metanframleiðslu (251.mál) er nú til umfjöllunar hjá iðnaðarnefnd og miklar væntingar bundnar við að Alþingi samþykki hana á þessu þingi. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og afar brýnt að sameiginleg verkefni á vergferðinni verði skilgreind á þessu ári.
Sjá fréttir í fréttaveitu Metan hf.
Nýjum bensínbílum er breytt í landinu í metan/bensínbíla fyrir nýskráningu og margþættur ávinningur skapast.
Mikil aukining í sölu á metaneldsneyti
Mikill áhugi á metanbílum
Umfjöllun um forsíðufrétt í MBL um tækifæri til aukinnar metanframleiðslu í landinu
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.4.2011 kl. 02:37 | Facebook
Um bloggið
Einar Vilhjálmsson
Nýjustu færslur
- Er bensínbílum að fjölga hlutfallslega séð? Fátt er svo með ö...
- Hryllingur stríðs - hefur aukið áreiti og gagnsæi deift tilfi...
- VEL GERT SORPA - heimsklassa framleiðsla á metaneldsneyti úr ...
- 2024 Til lukku með nýtt almanaks- og bætingaár - stöðugt hærr...
- Metan er málið og hefur blasað við um áratuga skeið - og börn...
Athugasemdir
Bæta einu "Ð" við í fyrirsögnina og metan er á fullri ferÐ. ;)
birgir (IP-tala skráð) 23.4.2011 kl. 21:03
Einar! Hvað með snákaolíu, fæst hún líka hjá metan.is?
Kristján Sigurður Kristjánsson, 23.4.2011 kl. 23:49
Takk fyrir innlitið, bókstafinn og snákinn sem reyndar væri vænlegast að nýta til manneldis.
Einar Vilhjálmsson, 24.4.2011 kl. 02:46
Einar, það skiptir ekki máli hvort þú notar metan, bútan eða hexan. Þú ert að tala um takmarkaða auðlynd, í öllum tilvikum. Það sem þarf að gera, er að flýta nýtingu vetnis. Það er það eina efnið, sem er fyllilega hagstætt og með allri þeirri raforku sem til er á Íslandi, þá er það eina 100% náttúrvænlega eldsneytið sem til er.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 24.4.2011 kl. 08:22
Mér skilst að það standi til að framleiða metan úr skólpinu sem kemur frá Reykvíkingum?
Það er galli á þessu metandæmi hversu fáar dælustöðvar eru, einungis tvær, á bíldshöfða og iðnaðarhverfinu á hrauninu rétt hjá álverinu ,Sem er eiginlega langt úr alfara leið fyrir flesta.
Svo er bara að bíða eftir því að ríkisstjórnin skelli sömu sköttum á metanið og er á hinum eldsneytisgjöfunum. Hvað ætli það muni kosta þá í samanburði við það innflutta?
Það góða við þetta er gjaldeyrinn sem sparast við það að framleiða þetta hér heima.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.4.2011 kl. 15:58
Sæll Einar, takk fyrir líflega og góða heimasíðu "metan.is". Það eru alltaf til úrtölu og neikvæðni púkar. Það eru þó fleiri sem sjá það jákvæða (lágvær meirihluti). Möguleikarnir í metanframleiðslu eru vafalaust mun meiri en fólk gerir sér alment grein fyrir og kostirnir við það margir. Set spurningu við rafmagnsbíla því að í dag er umhverfiskostnaðurinn við framleiðslu þeirra hár, hvað sem síðar verður. Varðandi skattlagningu þá er það eðlilegt að stjórnvöld gefi verulegan afslátt vegna nýrra og umhverfisvænna orkugjafa og heldur ekki óeðlilegt að skattleggja þá að einhverju marki í framtíðinni þegar umbreytingin hefur farið fram. Kveðja frá gömlum skólabróðir úr Borgarfirðinum
Guðmundur Ólafsson (IP-tala skráð) 24.4.2011 kl. 21:42
Takk Viktor - mikið rétt, þetta er ekki flóknara en þetta, blaasir við og er í hendi fyrir alla að sjá nema þá sem það vilja ekki sjá það. Eða eins og Ómar Ragnarsson orðaði það - metan er minnsta málið.
Einar Vilhjálmsson, 24.4.2011 kl. 21:42
Heill og sæll Guðmundur og takk fyrir innleggið. Sammála þér. Í okkar fámenna samfélagi færi vel á því að við næðum að skoða hlutina heildrænt og án þess að tala um starfsmenn stjórnsýslunnar í landinu eins og þeir séu ekki samlandar okkar sem deili kjörum í landinu með okkur hinum. Það væri sannarlega afar gleðilegt að geta með samtakamætti skapað það skilvirkt ferli framleiðslu og nýtingar á íslensku metaneldsneyti að hlutdeild af sölu þess í sameiginlega sjóði geti aukist umfram virðisaukaskattinn sem greiðist í sameiginlega sjóði í dag og samhliða tryggt almenningi hlutfallslega hagfelldasta orkukerfi til að knýja samgöngur í landinu. Sú sýn að svo geti orðið er raunar afar raunsæ.
Einar Vilhjálmsson, 24.4.2011 kl. 22:03
Takk fyrir skrifin. Bjarne Örn ég veit ekki alveg hvaða skilning þú leggur í orðin ,, takmarkaða auðlind" þegar þú ræðir um möguguleikan að framleiða metan úr lífrænu efni. Ég tel næsta víst að þú vitir að lífrænt efni myndast við ljóstillífun í nátturunni (sólarljós, vatn og fullnægjandi jarðvegur). Einnig geri ég ráð fyrir að þú vitir að við metanframleiðslu úr lífmassa fellur til hrat sem er ríkt af köfnunarefni og steinefnum sem nýtist vel til uppgræðslu lands.
Í fréttinni í Mbl. sem ég vísa til er rætt við Jón Guðmundsson hjá LBHÍ um orkubúskapinn við að nýta lífmassa til metanframleiðslu og hratið til uppgræðslu lands (áburð). Betri nýting á orku náttúrunnar til vélknúinna samgangna er vandfundin Bjarne og ég vil trúa því að þú vitir það. Svo lengi sem við höfum sólina, regnvatnið og frjósaman jarðveg á sér stað lífmassaframleiðsla öllu jafnan og með eins áreiðanlegum hætti og unnt er að ræða þessi mál í samhengi orkukerfisskipta í samgöngum á þessari öld.
Þú nefnir metan, bútan og hexan og leggur þessar sameindir að jöfnu í einhverjm skilningi. Nú er það svo að fjórkolefnasameindin, bútan (C4H10) og sexkolefnasameindin, hexan (C6H14), eru ekki kolefnasameindir sem myndast í lokafeli gerjunar í náttúrunni eða í gerjunarstöð, en einkolvetnissameindin metan (CH4) myndast hins vegar. Metan er stöðugasta kolvetnissameindin í náttúrunni og hana má nýta með endurnýjanlegum hætti.
Við getum auðvita talað um ansi margt sem takmarkað auðlind,ef því er að skilta og rætt þá m.a. um að jöklar landsins séu að hopa og því ekki á vísan að róa með að fallvatnsvirkjanir okkar geti fengið það vatnsmagn síðar á öldinni sem nú og áður. Þar fyrir utan vitum við að nýtingarmöguleiki á jarðvarmaborholu hefur sinn tíma sem og geta nýtt hana aftur ef það reynist unnt yfir höfuð.
Þessi umræða beinir spjóti okkar að tímalínu framkvæmda og aðgerða og gleymum því ekki að við erum að ræða orkukerfisskipti í samgöngum í þessu bloggi. Þú nefnir vetnisvæðinguna í heiminum til orkuframleiðslu en hún hefur fengið aukinn byr í seglin eftir kjarnorkuóhappið í Japan. Margir horfa til þess að orkuframleiðsla með vetnisvæðingu eingi eftir að stóraukast í heiminum á þessari öld og margt að gerast á þeim vettvangi auk annarra tæknilausna. Það breytir því ekki að um allan heim er horft til aukinnar metanvæðingar sem veigamikils þátta við að milda umhverfisáhrif vegna vélknúinna samgangna í heiminum á þessari öld. Og sérstaklega þar sem aðstæðru eru þær sem við búum við.
Gleymum því ekki að orkukerfisskipti í samgöngum eiga sér ekki stað í samgöngum landsins nema að eftirspurn neytenda sé til staðar og möguleiki sé fyrir hendi til að mæta margvíslegum þörfum með mismunandi gerðum og stærðum vélknúinna samgöngutækja sem fáanleg eru gegn ásættanlegu og viðráðanlegu verði. Tími tækifæra til aukinnar metanvæðingar er í hendi okkar samfélags Bjarne og mikilvægt að gleyma því ekki, samhliða, að samfélag okkar þarf að kosta miklu til í framtíðinni til að meðhöndla lífrænan úrgang til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar þjóðarinnar í umhverfismálum, óháð því hvort við framleiðum metan úr úrgangi eða ekki. Ávinningurinn af meðhöndlun á lífrænum úrgangi til metanframleiðslu er því mikill og margþættur.
Sú staðreynd að unnt er að framleiða metaneldsneyti í úrgangi frá heimilum og atvinnustarfsemi, seyru, mykju og margvíslegum lífmassa frá landbúnaði og sjávarfangi hefur opnað augu heimsins fyrir hagræðinu af aukinni nýtingu á metaneldsneyti í samgöngum. Við Íslendingar erum í aðstöðu til að auka framleiðslu og nýtingu á metani stórlega og vegferðin er hafin. Því ættum við að fagna með því að taka virkan þátt í framvindunni og á saman tíma gæta þess að hlúa að rannsóknarverkefnum sem styja aðrar tæknilausnir í von um að þær ná að leggjast á sömu sveif og metanvæðingin við að auka sjálfbærni orkuöryggis og ferðafrelsis í samgöngum landsins - enn og aftur tímalína valkosta verður að vera skýr og aðgerðarhæfi áreiðanlegt.
Einar Vilhjálmsson, 25.4.2011 kl. 19:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.