8.3.2011 | 17:46
Metan og uppfærsla bíla: Iðan heldur námskeið í samvinnu við Borgarholtsskóla og Umferðarstofu –kennsla hefst föstudaginn 11. mars.
Í námsvísi Iðunnar segir meðal annars: Metan, orka gærdagsins til framtíðar. Þetta er tvímælalaust námskeið fyrir þá sem vilja ná sér í þekkingu um tilurð metans og notagildi þess sem orkugjafa í bílum.
Á námskeiðinu er m.a. fjallað um stjórn-og þrýstibúnað metankerfis og notkun viðeigandi greiningartækja. Nemendur fá þjálfun í notkun metanbúnaðar og öðlast hæfni til að setja kerfi í bíla uppfæra bensínbíla svo þeir geti einnig nýtt metan í akstri.
Námskeiðið kostar 19.900 fyrir félagsmenn ( 48.000 kr fullt verð) og spannar 22 kennslustundir. Kennsla fer fram í Borgarholtsskóla. Sjá nánar hér:
Nokkur hundruð bílar hafa verið uppfærðir í landinu á síðustu misserum og mikil auknin í eftirspurn eftir uppfærslu á bensínbílum svo þeir geti einnig nýtt metan í akstri. Þrjú verkstæði bjóða þá þjónustu í dag, Vélamiðstöðin, Einn gænn og Megas og tvö önnur að undirbúa þjónustu , Höldur og Bíljöfur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.3.2011 kl. 12:31 | Facebook
Um bloggið
Einar Vilhjálmsson
Nýjustu færslur
- Er bensínbílum að fjölga hlutfallslega séð? Fátt er svo með ö...
- Hryllingur stríðs - hefur aukið áreiti og gagnsæi deift tilfi...
- VEL GERT SORPA - heimsklassa framleiðsla á metaneldsneyti úr ...
- 2024 Til lukku með nýtt almanaks- og bætingaár - stöðugt hærr...
- Metan er málið og hefur blasað við um áratuga skeið - og börn...
Athugasemdir
Sæll Einar, ég hef verið einlægur aðdáandi metanvæðingar. Eitt hefur þó svolítið angrað mig undanfarið, en það eru fullyrðingar nokkurra manna, þó einkum þeirra sem tala fyrir annari þróun en metan, að einungis sé geta til framleiðslu metan á örfá þúsund bíla hér á landi. Hver er sannleikurinn? Eru þessir menn að segja satt? Hver er framleiðslugeta okkar á metani og fyrir hvað stórann bílaflota?
Ég er ekki á móti rafbílum, biodísel eða öðru sem getur komið í stað bensín og dísel. Biodísel er áhugaverður kostur en það gengur einungis á díselvélar. Rafbílar eru enn sem komið er einungis raunhæfir til borgarnota, verðið stendur þó nokkuð í mönnum.
Metan og biodísel eru einu orkugjafarnir sem raunhæfir eru, þar sem bílaflotinn er til staðar og tiltölulega einfalt að skipta yfir í þá orkugjafa. Því hlýtur það að verða forgangur að skipta yfir í þessa orkugjafa. Hver framleiðsla á biodísel er, er ekki enn vitað. Þar spilar inní hver getan er til ræktunar hér á landi. Það ætti hins vegar að liggja fyrir hver hugsanleg geta er á framleiðslu metan. Því langar mig að vita hver hún er talin og fyrir hvað stórann hluta bílaflotans það muni duga.
Gunnar Heiðarsson, 9.3.2011 kl. 10:07
Heill og sæll Gunnar takk fyrir þetta. Rétt hjá þér, umræðan um takmarkað magn af metani á það til að vera gildishlaðin og mótast af upplýsingaskorti - minnir á stundum á íþróttamann sem hefur áhuga á spjótkasti og kemst að því að hann getur kastað 30 metra í dag og jafnframt að spjótkast sé íþrótt sem kallar á markvissar æfingar ef ná á árangri á landsvísu. Og þar sem viðkomandi var að leita eftir íþrótt sem hann þarf ekki að stunda markvisst til að verða þokkalega samkeppnisfær velur hann að líta svo á að hann geti ekki beint spjóti sínu af afli betur en svo að dragi nema 30 metra - viðkomandi er reyndar enn að leita að réttri íþrótt og gengur ekki vel, hann áttaði sig á því að honum líkar ekki vel að þurfa að svitna af og til.
Ég mun skrifa um metanframleiðsu í landinu í tengslum við þingsáliktunartillögu sem er til umræðu í þinginu þessa dagana og mun blogga um þetta mjög fljótlega. Sjá tillögu í þinginu: http://www.althingi.is/altext/139/s/0282.html
Einar Vilhjálmsson, 9.3.2011 kl. 13:13
Takk fyrir svarið Einar. Mun lesa bloggið frá þér þegar þú ritar það, eins og reyndar flest eða öll þín blogg hingað til.
Kveðja.
Gunnar Heiðarsson, 9.3.2011 kl. 14:26
Kæri Gunnar, Einar á ekki að vera í vandræðum með að upplýsa þig um þetta enda liggja tölurnar fyrir og enginn þekkir þetta betur en hann. Auðvitað breytast möguleikar með nýrri tækni frá ári til árs og alltaf er hægt að bæta við.
Eins og ég hef skilið hlutina þá erum við gróft með eftirfarandi möguleika á nýtingu á metani þannig að það sé nýtanlegt. Nýtanlegt þarf ekki endilega að þýða að það sé arðbært – það er allt önnur Ella.
Stærstu þættirnir gætu verið:
1. Metan úr sorpi – samanber það sem kemur undan haugunum í Álfsnesi. Þar er samkvæmt heimildum framleitt um 2200 tonn á ári af metani en sú framleiðsla samkvæmt áreiðanlegum heimildum myndi nægja um 4500 litlum ökutækjum. Lítil ökutæki kallast bílar eins og t.d. VW Golf sem dæmi. Svo eru litlar sorpstöðvar úti á landi og spurning hvort hagkvæmt sé að nýta þær ? ég hef ekkert séð yfir það en kannski lumar Einar á uppl. um það.
2. Metan úr kúamykju – þetta er mjög mikið gert í löndum þar sem stór bú eru með mörg hundruð gripi og jafnvel mörg þúsund gripi og í þessu eins og öðru er stærðin að hjálpa. Hér á landi eru ekki til stór bú í þeim skilningi sem nefnt er hér að ofan. Einungis örfá bú eru til hér á landi með meira en 150 gripi þannig að þú sérð að við erum ekki að tala um stóra skala í þessu sambandi. Stærsta bú landsins er Hrafnagil í Eyjafirði en þau eru með 140 kýr og síðan nautgripi á ýmsum aldri samtals tæplega 300 gripi. Þá er möguleikinn að safna saman gasi frá mörgum bændum. Það eru einungis tvö svæði á landinu sem gætu fallið undir það að hafa möguleika á að safna saman gasi frá mörgum en það eru Eyjafjörður og svo suðurland. Á Suðurlandi eru síðan svæðin í Landeyjum annarsvegar og svo í uppsveitum Árnessýslu hinsvegar sem verið í umræðunni. Ég læt fylgja með hér að neðan rapport úr ritgerð sem gerð var í fyrra og tekur einmitt á því hvort raunhæft sé að stunda slíka söfnun og var hún gerð í Eyjafirði. Niðurstaðan er nokkuð augljós að mínu mati. Það kemur einmitt fram að möguleiki sé á að framleiða með söfnun fá ÖLLUM BÚUM Á SVÆÐINU og um sem svarar til 2.3 milljón lítra af bensíni sem eru fyrir 1300 til 1500 bíla. Svipað magn skilst mér að sé á suðurlandsundirlendinu – kannski ívið meira og verum bjartsýn og fyrir segjum 2000 bíla. Þetta krefst engu að síður keyrslu með gasið á frá bændum að miðlægri vinnslu og síðan keyrslu þaðan til neytenda ! Hugsum aðeins ! Að keyra orku í formi gass um sveitir landsins í stað þess að keyra orku í formi vökva eins og nú er gert verður að setja spurningamerki við.
3. Metan úr skolpi og mannasaur – þetta er líka gert mjög víða erlendis og þá sérstaklega þar sem menn hafa leyst gríðarlegan umhverfisvanda með því að safna skolpi og saur í stórar stöðvar og safna metani úr þeim. Þetta er snilldar lausn og má finna þetta mjög víða t.d. í Evrópu. Nú er það svo að við höfum farið út í það að byggja ákveðnar lausnir hér á landi sem felast í því að senda kúkinn á haf út. Vissulega eru þetta ekki bestu kostir sem til eru enda fátt eins ókræsilegt og mannasaur úti í náttúrunni. Til að breyta þessu og hefja framleiðslu á metani þá þurfum við að fara út í töluverða fjárfestingu og kannski borgar hún sig ? ég hef þó ekki séð neina útreikninga sem sýna fram á það enn sem komið er. Einar lofar skrifum um þessi mál og verður fróðlegt að sjá hvað hann kemur upp með – nú leggjum við mikla pressu á hann að standa sig með skrifin : - )
4. Metan úr öðru – eflaust má finna möguleika á að vinna metan eftir öðrum leiðum en ég kem ekki auga á það svona í augnablikinu en ef það er þá er það bara frábært.
Niðurstaðan:
Hægt er að framleiða samkvæmt því sem að framan greinir metan fyrir kannski 8000 bíla.
Verum ofurbjartsýn og segjum 10.000. hvað á þá að gera við hina 220.000 bílana ? ? flytja inn metan ? ? ?
Ég er mjög hlynntur því að við notum metan, við verðum bara að gera það ef það er skynsamlegt. Ef Einar getur sýnt okkur fram á eitthvað annað en það sem talið er hér að framan þá er það bara fínt.
-----------------------------------------------------------------------------------------
Ég sótti heimildir sem hér segir:
Stærsta bú landsins : http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=504134
BENEDIKT Hjaltason og Margrét Aradóttir á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit reka nú stærsta kúabú landsins. Þau hafa á þessu ári keypt 175.000 lítra mjólkurkvóta og eru því samtals með 515.000 lítra greiðslumark. Kýrnar eru 140 talsins og nautgripir alls tæplega 300 á búinu.
Upplýsingar um metan úr Álfsnesi er frá Wikipedia: http://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%ADfeldsneyti
Metan sem eldsneyti hefur verið notuð til að knýja bíla á Íslandi frá árinu 2000. Metangasframleiðsla hér á landi hefur verið safnað saman á urðunarstað höfuðborgarsvæðisins í Álfsnesi. Þar er metangasið unnið úr hauggasi sem myndast við rotnun á lífrænu úrgangi. Í dag er framleitt um 2200 t á ári af metani, en sú framleiðsla myndi nægja um 4500 litlum ökutækjum. [8] Hauggasið sem myndast á urðunarstaðnum hefur að geyma um 55% af metani, koldíoxiðs um 42% og aðrar lofttegundir eru um 3%. [9]Hauggasið er safnað saman í safnkistur en þær eru tengdar safnrörum sem staðsettar eru við landfyllinguna og sjá um að vinna gasið úr jörðinni. Gasinu er flutt yfir í hreinsistöð þar sem það er hreinsað í svokölluðum þvegli. Aðferðin felst í því að metanið er skilið frá öðrum lofttegundum með vatni. Metanið er síðan þurrkað og þjappað á flöskur í áfyllingargám til flutnings á áfyllingarstöð. Þá er hreinleiki metansins orðinn 95-98%.
Gashæfni kúamykju og möguleikar metanvinnslu í Eyjafirði, eftir Svanhildi Ósk Ketilsdóttur LBHÍ Auðlindadeild: http://skemman.is/stream/get/1946/7059/19028/1/MS-ritger%C3%B0_S%C3%93K_pdf.pdf
Heildarmagn mykju á Eyjafjarðarsvæðinu var áætlað rúmlega 139 þúsund tonn á ári miðað við 7% þurrefni og í því var áætlað að væru 8.290 tonn af lífrænu þurrefni (LÞE) sem gæfi 2.183.184 m3 af CH4 á ári. Samsvarar það um 2,3 milljónum lítra af bensíni eða 2,1 milljónum lítra af dísel olíu.
Framleiðslugetan að magninu til er sambærileg við miðlægar III virkjanir í rekstri erlendis. Auk þess er mögulegt er að auka framleiðsluna með því að bæta í ferlið öðrum lífrænum úrgangi frá landbúnaði og/eða orkujurtum.
Sökum þess hve jarðvarmaorka og raforka er ódýr á svæðinu og á Íslandi almennt er ekki forsenda fyrir því að reisa miðlæga metan vinnslu í Eyjafirði nema hugsanlega til framleiðslu á eldsneyti. Nauðsynlegt er að hafa vinnsluna staðsetta sem næst þéttbýli, Akureyri í þessu tilfelli, svo að flutningsvegalengdir á metaninu að áfyllingarstöðvum yrðu sem minnstar.
Einnig yrðu næstum allir kúabændur á svæðinu (alls 98) að taka þátt í framleiðslunni sem þýðir að þetta mundi hafa mikil samfélagsleg áhrif. Vegna þessa er ekki hægt að huga að framleiðslu fyrr en ákvörðun hefur verið tekin um málið á samfélagslegum og stjórnmálalegum grundvelli.
Út frá magni og gæðum mykjunnar auk stuttra vegalengda og nálægð við nógu stóran þéttbýliskjarna má þó álykta að mögulegt sé að reisa metanvinnslu í Eyjafirði. Hvað hagkvæmniútreikningar leiða aftur á móti í ljós er annað reikningsdæmi.
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------
Vonandi hef ég rangt fyrir mér !
Kveðja
Sighvatur
Sighvatur Lárusson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 18:16
Takk fyrir þetta - staðfesti að hafa lesið það sem að ofan hefur verið skrifað, þakka fyrir það og áskorunina. Allar breytingar eins og þær sem hér um ræðir þarf að ræða með hliðsjón af raunsærri og aðgerðarhæfri tímalínu fyrir breytingar. Kem að þessu betur síðar en minni á að íslensku samfélagi ber að umgangast og meðhöndla lífrænan úrgang með öðrum hætti en gert hefur verið í landinu hingað til. Sú umgengni sem tilskilin verður í nánustu framtíð mun kalla á mikinn kostnaði í samfélagi okkar þótt metanframleiðsla verði ekki viðhöfð í þeim ferlum. Hagræðið að því að geta framleitt metaneldsneyti úr úrgangi og öðrum lífmassa og nýtt það til samgangan er því mun meira en sem nemur kostnaðarsparnaði af því að styðjast ekki við annað orkukerfi til að knýja för. Það er rétt, hjá Sighvati, að OFURÁVINNINGUR af því að nýta íslenskt metan í samgöngum er háður magni úrgangs - þ.e. ofurávinningurinn samfara því að framleiða metaneldsneyti út úrgangi sem við þurfum hvort sem er að kosta miklu til að koma frá í sátt við umhverfið takmarkast við magn úrgangs. Á vissu stigi eftirspurnar mun valið því stana milli þess að rækta lífmassa til enn frekari metangerðar eins og viðhaft er í stórauknum mæli víða um heim. Nú erum við komin að tímalínunni aftur og stöðu tækniþróunnar ökutækja - spurning hvort að tengil-tvinn-bílarnir metan/rafmagn verði ekki það hagfelldir þá að metanframleiðslan í landinu fullnægi stórum hluta af bílaflota landsins án þess að til komi ræktun á orkuplöntum ? Ekki svo að skilja að ræktun sé fyrirkvíðanlegt verkefni nema þá helst fyrir þá sem vilja alls ekki sjá uppgræðslu lands geta skilað nýjum tekjustofni á landsbyggðinni.
Einar Vilhjálmsson, 9.3.2011 kl. 20:58
Sighvatur, þú segir að ekki sé raunhæfur grundvöllur til metanframleiðslu bænda, vegna smæðar búanna. Er ekki möguleiki á að svæði eða héruð komi sér saman um slíka framleiðslu, þar sem bændur gætu skilað á ein stað skít hálmi og öðru sem til fellur, og þar yrði unnið metan úr þessu? Er nauðsynlegt að hver bóndi framleiði metan hjá sér?
Sjá hér.
Auðvitað mun metan aldrei leysa af alla okkar þörf fyrir eldsneyti, tvinnbílar, rafbílar biodisel og hugsanlega fleiri möguleikar munu einnig koma til. Metan er hins vegar einn af fáum eldsneytisgjöfum sem hægt er að skipta yfir í án þess að skipta út bílaflotanum. Því er það fyrsti raunhæfi möguleikinn til orkuskipta, þó hann útiloki ekki aðra.
Það sem hefur verið leiðinlegast í þessari umræðu og staðið henni veruega fyrir þrifum eru sleggjudómar og þá einkum þeirra sem eru að ræða um "sína" hugmynd að orkuskiptum. Rafbílar eru góðir þar sem þeir eiga við, þó slíkur bíll hafi ekki henntað borgarstjóranum. Þróun þeirra er ör og sennilega ekki mjög langur tími í að þeir verði sambærilegir bíl með sprengimótor. Sú stund er þó ekki komin og jafnvel þó svo væri, er alveg út í hött að ætla að skipta út öllum bílaflota landsins á stuttum tíma. Við erum að tala um 220.000 bíla og ef meðal verð þeirra er um 3.000.000,- kostar það um 660 miljarða ( 660.000.000.000,- ).
Því verðum við, ef við ætlum í orkuskipti fyrir bílaflotann, að skoða alla möguleika og raða þeim niður eftir því sem raunhæft er til að sem fyrst verði hægt að minnka innflutning á eldsneyti. Þá hljóta þær aðferðir sem henta þeim bílaflota sem fyrir er í landinu að verða fremstir, þó þeir útiloki ekki neitt annað.
Gunnar Heiðarsson, 16.3.2011 kl. 11:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.