Rétt er að vekja athygli á því að fyrirsögnin varpar skýru ljósi á þá staðreynd að með akstri á íslensku metani, í stað jarðgass, er hlutfallslegur umhverfislegur ávinningur af notkun metanbíls enn meiri á Íslandi en í Bandaríkjunum. Með akstri á íslensku metani losna engar gróðurhúsalofttegundir af jarðefnauppruna út í andrúmsloftið. Í Bandaríkjunum er metaneldsneytið að langstærstum hluta unnið úr jarðgasi en þrátt fyrir það kemur metanbíllinn svona vel út þar í landi. Hvernig má það vera þar sem jarðgas er jarðefnaeldsneyti ?
Svarið liggur m.a. í því að mun minni losun gróðurhúsalofttegunda af jarðefnauppruna á sér stað við vinnslu og bruna á jarðgasi en bensíni eða dísilolíu. Þar fyrir utan miðast heildræn umhverfisáhrif vegna notkunar mismunandi ökutækja við lífferilsgreiningu á heildrænum umhverfisáhrifum vegna framleiðslu og förgun ökutækjanna sjálfra og því orkukerfi sem akstur þeirra grundvallast á svo fátt eitt sé nefnt. Neikvæð umhverfisáhrif vegna ökutækja eru að stærstum hluta til kominn vegna framleiðslu og förgunar þeirra. Og í sumum tilfellum eru umhverfisáhrif vegna framleiðslu og förgunar ökutækja það neikvæð að hlutfallslega umhverfismild áhrif af notkun þeirra nægja ekki til að skapa hlutfallslega jákvæð umhverfisleg heildaráhrif í samanburði við aðra tæknivalkosti. Með notkun á metan/bensínbíl á Íslandi þar sem stuðst er við íslenskt metan til að knýja för blasir við að erfitt mun reynast fyrir aðrar tæknilausnir að skapa sambærilegan umhverfislegan heildarávinning fyrir heimsþorpið og rekstrarlegan ávinning fyrir þjóðina að því gefnu að nota þurfi fólksbíl í samgöngum yfir höfuð.
Rétt er að geta þess, í þessu samhengi, að heildræn umhverfisleg útkoma fólksbíla, sem styðjast við notkun á rafmagni sem hluta að orkukerfi ökutækis, er einnig betri á Íslandi en í Bandaríkjunum, enda búum við Íslensdingar það vel að eiga rafmagn sem framleitt er með virkjun fallvatna. Og með frekari þróun á umhverfismildari framleiðslu á rafhlöðum standa vonir til að aukin nýting á íslensku rafmagni í samgöngum geti kröftuglega lagst á sveif með metanvæðingunni í framtíðinni við að skapa hlutfallslega mesta ávinning til umhverfimildunar í samgöngum sem völ er á. Og er jafnframt horft til lífdísils, vetnis, etanóls, metanóls og DME í þeim efnum.
Á næstu áratugum horfa ýmsir til þess m.a. að hagfellt verði fyrir okkur Íslendinga að innleiða ökutækja með tengil-tvin-orkukerfi, metan/rafmagnsbílar, þar sem unnt er að nota hagfellda og endurhlaðanlega rafgeyma ( frá tengli) í bland við íslenskt metaneldsneyti til að knýja för. Slík ökutæki eru í notkun í heiminum í dag og þeim mun fjölga á komandi áratugum í takt við bætt dreifikerfi fyrir metaneldsneyti ásamt með ökutækjun sem ganga eingöngu fyrir metaneldsneyti í fljótandi formi enda eru slík ökutæki víða í notkun í heiminum í dag og fjölgar hratt.
Uppbygging á dreifikerfi fyrir metaneldsneyti hefur verið hröð um allan heim á þessari öld, enda ber öllum saman um að stóraukin notkun á metaneldsneyti mun gegna mikilvægu hlutverki við umhverfismildun samgangna í heiminum, leggja grunn að aukinni sjálfbærni í samgöngum og styrkja orkuöryggi þjóða heims. Orkukerfisskipti í samgöngum í heiminum munu þó að stærstum hluta grundvallast á heildarkostnaði almennings við að viðhafa þau. Fyrirsjáanlegt þykir að við Íslendingar eigum tækifæri til að stórauka metanvæðingu í samgöngum landsins með hagfeldum og áreiðanlegum hætti í dag og á komandi árum og vitundarvakning átt sér stað í þeim efnum meðal almennings og ráðamanna.
Sjá fréttir
Sjá frekari fróðleik á Metan.is
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.3.2011 kl. 00:08 | Facebook
Um bloggið
Einar Vilhjálmsson
Nýjustu færslur
- Er bensínbílum að fjölga hlutfallslega séð? Fátt er svo með ö...
- Hryllingur stríðs - hefur aukið áreiti og gagnsæi deift tilfi...
- VEL GERT SORPA - heimsklassa framleiðsla á metaneldsneyti úr ...
- 2024 Til lukku með nýtt almanaks- og bætingaár - stöðugt hærr...
- Metan er málið og hefur blasað við um áratuga skeið - og börn...
Athugasemdir
Algerlega utan efnis. Beige bakgrunnur gerir eldra fólki erfiðara fyrir að lesa texta.
stefan benediktsson (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 15:02
Takk fyrir góða ábendingu.
Einar Vilhjálmsson, 2.3.2011 kl. 15:22
Sæll Einar,
Svolítið fyndið þegar þú setur svona upplýsingar fram, það kemur nefnilega ekkert fram hver var að velja þessa bíla en ég reikna með að þú sért að vísa í val sem fram fór hjá ACEEE (American Council for an Energy Efficient Economy) en þar voru 13 "umhverfismildustu" bílarnir valdir. Það voru reyndar 2 bílar í þessu sæti Einar, bæði Honda Civic GX sem metanbíll og Nissan Leaf sem rafbíll ! Halló, af hverju ekki að nefna rafbílinn líka því báðir fengu 54 stig ? voru jafnir !
Eða var það í einhverjum öðrum kosningum sem metanbíll var valin ? ef svo er þá væri gaman að vita af því en þá getur þú líka glaðst yfir þessum úrslitum.
Reyndar voru það 6 af þrettán bílum sem voru bensínbílar en það er vegna þess að svo fáir rafbílar voru í boði. Það verður gaman að fylgjast með þessu þegar rafbílunum fjölgar.
En sem sagt Einar – þegar verið er að vitna í eitthvað er skemmtilegra að segja hvað það er og ef það er kosning ACEEE þá ber að segja rétt frá.
Kveðja
Sighvatur
Sighvatur Lárusson (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 09:43
Heill og sæll Sighvatur. Í bloggi mínu vísa ég í frétt á metan.is þar sem getið er um Nissan Leaf bílinn. Rétt hjá þér, ég hefði alveg mátt minnast á hann í blogginu hér og reyndar alla bílana á top-12 listanum enda geta þeir væntanlega allir skapað hlutfallslegan umhverfislegan ávinning í stað stórs hlut ökutækja sem eru í umferð í dag. Frétt bloggsins er þó eftir sem áður, fyrst og fremst, sú að þótt metanbíllinn gangi fyrir metaneldsneyti unnu úr jarðgasi þá skorar hann inn á top-12 listann með afgerandi hætti. Sú staðreynd hefur komið mörgum verulega á óvart. Mikið rétt hjá þér, hins vegar, rafgeymaframleiðsla á eftir að þróast mikið á komandi árum og næsta víst að umhverfislega eiga þær eftir að koma mun betur út en þær gera í dag og þar með orkukerfi þeirra bíla sem styðjast við þannig búnað að stórum hluta eða í bland við eldsneyti eins og í tilfelli tvinnbíla og tengil-tvinnbíla. Margir telja líklegt að metan-tengil-tvinnbíllinn með umhverfismildri rafhlöðu eigi eftir að eiga erindi við okkur Íslendinga með hagfelldum hætti á fyrrihluta þessarar aldar.
Einar Vilhjálmsson, 8.3.2011 kl. 18:17
Sæll Einar,
Þakka þér fyrir svörin, ég athugaði ekki í byrjun að fara á linkana neðst í fréttinni, þá hefði ég séð það. Reyndar virkar bara annar linkurinn á fréttinni þ.e. sá sem vísar á heimasíðu Honda, en sá sem vísar á fréttina hjá ACEEE virkar ekki - þú kippir því í liðinn.
Annað mál Einar, er að þú ert gjarn á að tala um að framleiðsla á rafhlöðunum og rafmótorum í rafbílum sé svo mengandi og þú heldur því áfram. Við erum nú búnir að fara í gegnum þessa umræðu áður og eins og ég sýndi þér í þessum tveimur skýrslum sem lágu fyrir þá er mengunarþáttur við framleiðslu, notkun og förgun á rafhlöðunum einungis 15% til 20% af heildarmengun rafbílsins.
Ég leyfi mér að rökstyðja það aðeins:
Þetta kemur fram í Svissnesku skýrslunni "Contribuition of Li-Ion Betteries to the Enviromental impact of Electric Vehicles" þar sem talað er um 15%, en í þeirri skýrslu segir:
“The study shows that the environmental burdens of mobility are dominated by the operation phase regardless of whether a gasoline-fueled ICEV or a European electricity fueled BEV is used. The share of the total environmental impact of E-mobility caused by the battery (measured in Ecoindicator 99 points) is 15%. The impact caused by the extraction of lithium for the components of the Li-ion battery is less than 2.3% (Ecoindicator 99 points). The major contributor to the environmental burden caused by the battery is the supply of copper and aluminum for the production of the anode and the cathode, plus the required cables or the battery management system.”
Niðurstaða:
1. Umhverfisáhrifin (mengun) er langmest við notkun bíla og skiptir ekki máli hvort um rafbíl eða bensínbíl er að ræða. Þetta er þvert ofan í það sem þú heldur stöðugt fram Einar að framleiðsla rafbíla og sérstaklega mótors og rafhlaðna sé svo mengandi.
2. Hluti rafhlöðunnar í þessu öllu saman er um 15%. Þetta er einnig þvert ofaní það sem þú hefur haldið fram, bæði í ræðum og hér á þessu bloggi þínu.
3. Svo er ágætt að halda því líka til haga að þeir þættir sem menga mest við framleiðslu rafhlöðunnar eru framleiðsla á kopar og áli sem hvoru tveggja er endurvinnanlegt eins og reyndar meginhluti rafhlöðunnar.
Svo er það hinsvegar í frábæru Bandarísku skýrslunni sem þú vitnar alltaf í "Hidden Costs of Energy: Unpriced Consequences of Energy Production and Use“ þar sem talað er um 20%, en í þeirri skýrslu segir m.a. á bls. 10:
. . . In addition, battery and electric motor production being energy and material intensive added up to 20% to the damages from manufacturing. . . . .
Niðurstaða:
1. Á nákvæmlega sama máta og fram kemur í Svissnesku skýrslunni er hluti framleiðslu bíla hvort heldur er rafbíla eða annarra einungis lítill hluti af heildinni. Sá hluti er hinsvegar mjög svipaður fyrir allar gerðir bíla, bensín, dísil, metan, rafmagns etc.
2. Í þessari skýrslu er byggt á fjórum helstu þáttum við samanburð en það eru:
a. Feedstock: Extraction of oil and its transportation to the refinery.
b. Fuel: Refining of the oil and its transportation to the pump.
c. Vehicle: All emissions associated with production of the vehicle, which itself, since it involves energy use, accounts for all life-cycle stages.
d. Operation: Tailpipe and evaporative emissions.
3. Þau 20% sem nefnd eru hér að ofan eru einmitt 20% af lið c. framleiðsla bílsins.
4. Ef þú síðan lest út úr grafinu á bls 13. sem þú gjarnan vitnar í kæri Einar þá kemur þetta allt fram ! Ef þú síðan fjarlægir lið a. b. og d. þar sem þessir liðir eru nánast ekki í gildi þegar rafbíllinn er notaður hér á landi þá stendur eftir að einungis er um að ræða mengun við rafbílinn sjálfan samkvæmt lið c. Þetta kemur allt mjög vel fram í töflunum á bls. 324 til og með 341 og þá bæði fyrir árið 2005 og 2030.
Í ljósi þess að við erum búnir að fara yfir þetta, bæði í síma og í heimsóknum þínum til okkar þá skil ég ekki allt þetta tal um að rafhlöður og rafmótorar í rafbílum séu svo mengandi - það bara stenst ekki skoðun. Það er ekki gott að vera með villandi umfjöllun og rangfærslur visvitandi, eða hefur þú uppgötvað eitthvað annað en fram kemur í þessum skýrslum Einar ?
Legg til að þú ritskoðir fyrri skrif þín og takir út rangfærslur sem og farir rétt með í framtíðinni bæði í ræðu og riti.
Síðan eigum við að taka höndum saman og hjálpa þjóðinni að losa okkur við bensíndruslurnar í stað þess að reyna að gera lítið úr tækni hvors annars – metan og rafmagn fer ágætlega saman.
Kær kveðja
Sighvatur
Sighvatur Lárusson (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 20:34
Sæll aftur Einar,
Læt eina slóð hérna frá Nissan sem sýnir framleiðslu á hinum ágæta Leaf rafbíl frá fyrirtækinu. Það kemur einmitt fram að í þesari verksmiðju eru bílarnir framleiddir hlið við hlið bensín og rafbílar. Eini munurinn er ísetning rafhlöðu og rafmótors. Framleiðsla þeirra er einnig sýnd - þetta er hátækniframleiðsla!
Þetta er góður myndbútur:
http://www.youtube.com/watch?v=saPWgjsRcAQ&feature=player_embedded
Kveðja
Sighvatur
Sighvatur Lárusson (IP-tala skráð) 8.3.2011 kl. 21:52
Takk fyrir þetta Sighvatur. Skýrslurnar eru margar sem gefnar hafa verið út enda um að ræða gríðarlega hagsmuni fyrir heimsbyggðina og ekki síst framleiðendur ökutækja og orkukerfa. Þú veist að ég hef bent mönnum á fróðlegar upplýsingar í skýrslunni ,,Hidden Cost og Energy“ frá National Academy of Sciencesen sem út kom 2009 (bls. 9-16.), engin smáskýrsla- sjá brot hér. Í skýrslunni er að finna upplýsingar sem ríma vel við þá niðurtöðu sem umræddur top-12 listi í Bandaríkjunum varpar ljósi á og ég bloggaði um. Meintar hagfelldar tæknilausnir til umhverfismildra orkukerfisskipta í samgöngum hafa, því miður, verið markaðsettar með full óáreiðanlegum hætti í gegnum tíðina, eins og við þekkjum það, en eflaust var að vel meint og því eðlilegt að fagna hlutlægum mælikvarða svo gera megi enn betur.
Við heyrðum báðir hvað koma fram á DS 2010 varðandi raunsæja tímalínu fyrir hagfelld markaðsboð mismunandi tæknilausna þegar kemur að vélknúnu samgöngutæki til einkanota, aðalfólksbíl fjölskyldu (bíll-1). Hagfelldari valkostur á Íslandi , en að aka um á fólksbíl sem gengur fyrir íslenskut metani, er ekki alveg handan við hornið. Ýmsir eru gjarnir á að mæta þeirri staðreynd með tali um að það sé svo lítið til af metani á Íslandi, að það sé ekki unnt að knýja nem nokkur þúsund bíla með þeirri tæknilausn. Við vitum báði að það er ekki rétt. Víða skorti þekkingu og ljúft að bæta úr því, en hér á ég ekki við þig eða þína samstarfsaðila – þið þekkið vel tækifæri okkar Íslendinga til hagfelldra samgangna í daf og í framtíðinni og hafið talað um stórsaukna metanvæðingu og rafvæðingu sem fyrirsjáanlega þróun. Spurning því sú, fyrst og fremst, hvenær er tímabært að gera hvað.
Eins og komið hefur oft fram hjá mér þá standa vonir til þess að sá tími komi að lítill rafbíll, sem bíll-2 hjá fjölskyldu, getir talist í flokki umhverfismildustu og hagfelldustu ökutækja sem uppfyllt geta þarfir fjölskyldna fyrir bíl-2. Nú er Nissan Leaf kominn í góða stöðu í hlutfallslegum umhverfislegum samanburði ökutækja í Bandaríkjunum í þeim flokki (bíll-2) og því ber að fagna. Þróun á Nissan Leaf bílnum er kominn vel á veg og getur þjónað þörfum margra fyrir bíl-2. Það er hins vegar stóra spurning hvað bíll-2 má kosta og hvort lífsstíll framtíðar fjölskyldu kalli á tvo bíla eða fleiri eða fyrst og fremst einn bíl samhliða bættum almenningssamgöngum. Næsta víst þó að þarfir verða mismunandi milli landa og landshluta, en þessi mál þarf að skoða vandlega og ræða þegar tímalína hagfelldra aðgerða er rædd - sérstaklega þegar lítið er til skiptanna. Eitt er að ræða tæknilausnir í heimsþorpinu og þróun þeirra, annað að ræða hvar hvaða tæknilausn hentar best heildarhagsmunum hvers samfélags fyrir sig og hvernig hagfelldast og áreiðanlegast sé að leggja áherlu á kerfislæga breytingu.
Mitt blogg hér að ofan varpar ljósi á þá staðreynd að efnahagslega áhættan af aukinni metanvæðingu í íslensku samfélagi getur vart verið minni þegar kemur að því að styðja breytingar til umhverfismildunar í samgöngum landins og samhliða skapa mikinn og margþættan ávinning fyrir íslenskt samfélag í dag og til framtíðar litið. Þessi fullyrðing miðast við að núverandi bílafloti verði notaður með svipuðum hætti hér eftir sem hingað til og að á næstu áratugum geri almenningu kröfu um að geta viðhaldið því ferðaferlsi og samgönguöryggi sem við þekkjum í dag án þess að kostnaðurinn aukist sem hlutfall af ráðstöfunartekjum - lækki ef eitthvað er. Vonir standa til að rafvæðing í samgöngum geti lagst á sveif með metanvæðingunni sem fyrst og skapað einnig mikinn heildarávinning í samgöngum. Spurningin sem brennur á þér Sighvatur er sú hvort sá tími sé ekki kominn að undirbúa þurfi kröftuglega á komandi misserum fyrirsjáanlega stóraukningu í rafvæðingu í samgöngum. Það er sú umræð sem við ættum að taka í ljósi stöðu efnahagslífsins, kaupmáttar almennings, gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar og umhverfislegs ávinnings svo fátt eitt sé nefnt. Við erum sammála um flest en eigum eftir að ræða hagfellda tímasetningu fyrir kostnaðarþátttöku í kerfislægum breytingum - almmenningur, atvinnulífið, sveitarfélög og ríkið. Það getur verið dýrt að vera fátækur en einnig að vera það ekki.
Einar Vilhjálmsson, 9.3.2011 kl. 23:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.