Frábær frétt - ný lög skapa merk tímamót - 1000 þakkir til þingmanna

Ný lög hafa verið samþykkt á Alþingi sem lúta að kerfisbreytingu í skattlagningu ökutækja, vörugjaldi af ökutækjum, eldsneyti o.fl.. Lögin marka heillaspor á vegferð orkukerfisskipta í landsamgöngum þjóðarinnar að ýmsu leiti.  Sérstaklega hvað varðar hvata til aukinnar notkunar á innlendu og endurnýjanlegu eldsneyti og ærin ástæða til að þakka störf þingmanna í þeim efnum.

Lögin snerta flest svið samfélagsins með einum og öðrum hætti enda lúta þær breytinga sem hér um ræðir að nýju skattaumhverfi við að flytja fólk og vöru í landinu.

Lögin endurspegla vitundarvakningu í okkar samfélagi um kosti þess að nýta í stórauknum mæli innlent og endurnýjanlegt eldsneyti til að knýja för vélknúinna ökutækja í stað innflutts jarðefnaeldsneytis.  Og þess vænst að aukin þróun í þá átt dragi úr hlýnunaráhrifum í lofthjúpi jarðar vegna samgangna í landinu auk þess að leggja grunn að margþættum efnahagslegum ávinningi fyrir þjóðina - fjölgun grænna starfa, gjaldeyrissparnaður, aukið orkuöryggi með endurnýjanlegum hætti og aukin sjálfbærni við að tryggja ferðafrelsi í landinu.  

Fjölmörg sjónarmið þarf að taka tillit til við leiðarval að hverjum áfanga við orkukerfisbreytingar í samgöngum þjóðarinnar og eðlilegt að skiptar skoðanir komi upp um áherslur á vegferðinni enda snertir málaflokkurinn með beinum eða óbeinum hætti líf allra landsmanna, mismunandi viðskiptalega hagsmuni og alþjóðlegar skuldbindingar þjóðarinnar í loftslagsmálum.

Heilt yfir er hér um að ræða merkan áfang sem ber að fagna og þakka Alþingi fyrir að hafa náð. Og rétt er að minna þá á sem hreyft hafa við andmælum að í greinagerð með upprunalegu frumvarpi  er lagt til að lögin komi til endurskoðunar eigi síðar en að fimm árum liðnum. 

 Ný lög skapa hvata til frekari framgöngu metanvæðingarinnar í landinu og sérstaklega hvað varðar tímalengd ívilnana.  Helstu hvatar til frekari metanvæðingar í nýjum lögum eru þessir:

  • Nýr metan/bensínbíll frá framleiðanda verður undanþeginn vörugjaldi allt að 1.250.000 kr.
  • Metan eldsneyti verður ekki skattlagt umfram það sem verið hefur til þessa.
  • Ef ný og ónotuð ökutæki eru flutt til landsins og uppfæra fyrir nýskráningu í metan/bensínbíl eða metan/dísilbíl, njóta þau niðurfellingar á vörugjaldi allt að 1.250.000 kr.
  • Dæmi: Bílaumboð gætu boðið allar gerðir nýrra bensínbíla með uppfærslubúnaði, metan/bensín og fengið vörugjald á hverjum bíl niðurfellt allt að 1.250.000kr. Þar sem uppfærsla á bílum kostar algengt 400-500 þús. gætu ökutæki sem nauðsynleg eru til að tryggja samgönguöryggi í landinu lækkað í verði til almennings.
  • Sendibílar (metan/bensín) sem ætlaðir eru fyrst og fremst til vöruflutninga undir 5 tonn munu njóta  niðurfellingar á vörugjaldi allt að 1.250.000 kr.

Hér er um að ræða heillaspor á vegferð þjóðarinnar og góða jólagjöf til umhverfisins í víðum skilningi.

althingi thingmenn

Senn mun Íslands umferð batna, 
eflist rekstur líf og getan.
Hagur vex á grundum gatna,
gæfusporið íslenskt metan.

Takk til þingmanna allra flokka

Allt um metan-eldsneyti- sjá hér
Öryggi metans- sjá hér
Auðvelt að fylla á metantankinn-sjá hér


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Einar.

Allt sem stuðlar að aukinni metanvæðingu er gott. Þó er ekki víst að þessi lög séu eins góð og þú segir. Það sem metanið hefur umfram flesta aðra innlenda orkugjafa er hversu auðvelt er að breyta eldri bílum yfir í metan, bílum sem þegar eru til staðar. Það er ekki að sjá að í þessum lögum sé neitt sem hjálpar til við það, þvert á móti. Eins og þú bendir á mun þetta væntanlega leiða til þess að metanbílar lækki í verði. Því mun eldri bíll, sem breytt er yfir í metan að sama skapi lækka. Ef ég fer með minn bíl og læt breyta honum fyrir 400 - 500 þúsund, mun hann í besta fali halda verðgildi sínu, að minnsta kosti get ég ekki gert ráð fyrir að hann hækki í verði.

Ég hefði viljað sjá hluta af þeirri tekjurýrnun sem ríkið verður af vegna þessara laga koma til niðurgreiðslna á breytingu eldri bíla, bíla sem fyrir eru í landinu.

Gunnar Heiðarsson, 19.12.2010 kl. 06:03

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég tek undir að þetta eru lög til að fagna en eins og Gunnar segir þá væri stór markaður við breytingar á Gömlu bílunum sem oft eyða meira í eðli sínu. Hér mætti afnema tolla og vörugjald af gjöldum á hlutum fyrir þessar breytingar og virðisaukaskattinn líka.

Valdimar Samúelsson, 19.12.2010 kl. 08:29

3 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Ágæti Einar, þetta var góður pistill hjá þér sem og oft áður. Ég er líka sammála Gunnari og Valdimar, að það mætti gjarnan búa til hvata fyrir eigendur eldri bíla til að metanvæða sína bíla ? Ríkisstjórnin hefur t.d. komið á móts við húseigendur og fellt niður vask af vinnu við viðhald og breytingar húsnæðis.! Hví má ekki koma á svipaðan hátt fram við eigendur ökutækja og vinnuvéla ?

Kveðja, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 19.12.2010 kl. 11:58

4 identicon

Heilir og sælir og takk fyrir þetta.

Mikið rétt, helsta raunsæja aðgerðin til hagsældar fyrir heimilin í landinu í dag , sem jafnframt rímar að fullu við markmið og tilgang orkukerfisbreytinga í samgöngum, lítur að uppfærslu núverandi bílaflota.  Annað frumvarp er í þinginu sem tekur á þessu þjóðþrifaverkefni, Þskj. 98 — 92. mál.  Fyrsta umræð um frumvarpið fór fram í þinginu 24.nóvember og er það nú hjá efnahags-og skattanefnd sem hefur víða leitað umsagnar. Innsendar umsagnir þurfa að berast nefndinni eigi síðar en 21.desember og eftir það á hún leikinn.   

Á fundi Grænu orkunnar nýverið var þess getið að fjármálaráðuneytið hefði skoðað málaflokkinn með opnum huga við gerð fjárlaga og gert ráð fyrir að til einhverjar endurgreiðslu kynni að koma vegna uppfærslu bíla.  Í umræðunni hefur verið rætt um líkindi fyrir tillögu um 20% afslátt af uppfærslu bíla samkvæmt reikningi og gildi fyrir ökutæki 6 ára og yngri. Einnig hefur verið nefnt í umræðunni að veita 100-150 þús kr eingreiðslu fyrir ökutæki 6 ára og yngri.

Við þurfum að fylgjast vel með framgöngu þessa máls enda sannarlega um að ræða málaflokk sem skiptir miklu máli fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki í landinu í dag og er jafnframt raunsæjasta og aðgerðarhæfasta leiðin til að ná árangri til umhverfismildunar í samgöngum þjóðarinnar á næstu misserum.

Sjá fyrstu umræðu í þinginu:  http://www.althingi.is/altext/raeda/139/rad20101124T181809.html

Sjá stöðu málsins á vef Alþingis:  http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=139&mnr=92

Einar Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 19.12.2010 kl. 13:05

5 Smámynd: Einar Vilhjálmsson

Aðeins varðandi uppfærslu notaðra bensínbíla í metan/bensínbíla og verðgildi bíla á markaði almennt.

Nýir bílar uppfærðir:  Nýju lögin (197.mál) munu veita gott svigrúm fyrir bílasala til að bjóða bensínbíla af hvaða gerð sem er með uppfærslubúnaði svo einnig sé unnt að aka á metani.  Gáum að því að flestir bensínbílar sem eru í umferð í landinu í dag hafa ekki verið í boði hjá framleiðendum með uppfærslubúnaði (fyrir metan líka) og því vart ástæða til að ætla verð á einni tegund bensínbíls lækki mikið eða hratt þótt að uppfærðum bílum sömu tegundar fjölgi eitthvað í landinu.  Dæmi, ef þú átt millistóran að algengan fjölskyldubíl (árg. 2006) er ekki ástæða til að ætla að verðgildi hans lækki umfram eðlilega árlega verðlækkun þótt nokkrir metan/bensínbílar af 2011 árger sömu tegundar verði í umferð í landinu á nýju ári og næstu árin. Eitt er að sala á nýjum bílum í landinu er í sögulegu lágmarki og viðbúið að uppfærðir nýir bílar verði lítið á endursölumarkaði í nokkur ár eftir að þeir verða teknir í umferð.

Notaðir bílar uppfærðir:  Gefum okkur að frumvarpið í þinginu (92.mál) verði einnig að lögum og að í kjölfarið verði algengur kostnaður almennings 300.000 kr. m.vsk.  fyrir uppfærslu á meðalstórum fjölskyldubíl.  Viðbúið er að uppfærðir bíla með þessum hætti verði ekki á markaði til endursölu í góðan tíma eftir að viðkomandi lætur uppfæra bílinn sinn og því viðbúið að þeir bílar hafi lítil áhrif á almennt verð á bensínbíl sömu gerðar. Hins, vegar þykir afar líklegt að uppfærðir bíla í góðu standi muni seljast hraðar en hefðbundnir bensínbílar sömu tegundar og árgerðar sem eru í sambærilega góðu ástandi.  Verðgildisauki ökutækisins tengist svo auðvita fyrirhugaðri notkun á því (eknum km) og mismuni á verði metans og bensíns og því mismunandi frá einum notenda til annars. Með nýju lögunum (197.mál) hefur verðgildisaukinn vegna notkunar á uppfærðum ökutækjum verið gerður áreiðanlegri þar sem ríkið hefur staðfest að það hafi ekki í hyggju á leggja nýjan skatta eða gjöld á metaneldsneyti á næstu árum.

Einar Vilhjálmsson, 19.12.2010 kl. 14:19

6 identicon

Mjög góðar fréttir og vonandi fylgir brátt meira í kjölfarið, þetta er aðeins byrjunin, en góð sem slík

Gunnar Sigfusson (IP-tala skráð) 19.12.2010 kl. 14:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einar Vilhjálmsson

Höfundur

Einar Vilhjálmsson
Einar Vilhjálmsson

Mottó: Efling hins megnuga sjálfs.                   
e.vilhjálmsson@gmail.com
S. 786-1020
Mannskepnan er mögnuð vera, man í sanskrít merkir hugur. Læt það versta alveg vera, veit þá mér ei brestur dugur. 081008

Nýjustu myndir

  • Mynd sem breytti Vietnamstríðinu
  • kim phuc phan thi 1 0f7e31f4825f4b6395b37744b3cc3264
  • 52419989986 32debd4cfa k (1)
  • 100 metan
  • Þrautseigja Shutterstock 613401872

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband