Fékk spurningu um hvort auðvaldið viðhafi viðspyrnu gegn aukinni metanvæðingu á Íslandi ?

Sæll Einar, mig langar að spyrja þig um þá staðreynd að auðvaldið hafi valdið því að aðrir aflgjafar en bensín og olía hafi átt erfitt uppdráttar hér á Íslandi? Heldur þú að embættismenn og auðvaldið séu tilbúnir að sleppa takinu á olíufélögunum?  ( Helgi Þór Gunnarsson, síðasta blogg).

Takk fyrir þetta Helgi.  Þú nefnir auðvald og viðspyrnu breytinga. Á markaði er eðlilegt að leikmenn gæti hagsmuna sinna. Framleiðendur olíuafurða eiga vissulega mikið undir því að breytingar á eftirspurn eftir vörum þeirra eigi sér ekki stað það hratt að leiði til fjárhagslegs stórtjóns fyrir þá. Olíuframleiðendur hafa þó fyrir margt löngu gert sér grein fyrir því að bruni á olíu er ósjálfbær orkunýting og að breytingar á orkukerfi samgöngutækja muni eiga sér stað í stórum stíl á þessari öld. Á ráðstefnunni Driving Sustainability í Reykjavík 2010 nefndi fulltrúi OPEC-ríkjanna að vilji olíuframleiðenda stæði til þess að finna farveg fyrir farsæla framvindu breytinga þar sem hagsmunir og ávinningur samræmdust samfélagsleg ábyrgum markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af jarðefnauppruna af mannavöldum. Spurningin er, hvernig skilgreinum við farsæla framvindu?
  

Hvað varðar íslensku olíufyrirtækin þá eru þau ekki einungis smásalar á eldsneyti til samgangna. Heilt yfir má segja að íslensku olíufélögin fagni því mjög að geta selt umhverfisvænt eldsneyti til samgangna svo fremi sem slíkur ráðahagur rústar ekki rekstrargrundvelli þeirra- og þarf reyndar alls ekki að gera það. Vissulega mun aukning á notkun innlends eldsneytis hafa áhrif á einhverja innlenda hagsmuni tengda innflutningi á olíuafurðum í dag en stóra myndin er þó sú að tryggja má sambærilegt tekjuflæði til félaganna með sölu á endurnýjanlegu eldsneyti og því í raun ekki mikil fyrirstaðan af þeirra hálfu gagnvart orkukerfisbreytingum í landinu.

 Spurningin er hins vegar sú hvort réttmætt sé að olíufélögin beri einhliða kostnaðinn af því að byggja upp þjónustu um sölu á íslensklu eldsneyti sem skapað getur þann heildarávinning fyrir samfélagið sem notkun á innlendu og endurnýjanlegu eldneyti hefur í för með sér.  Þótt ávinningur félaganna gæti verið hinn sami hvort heldur þau selja bensín eða íslenskt metan þá er ávinningur samfélagsins mun meiri en hlutfallslegur ávinningur þeirra. Því má segja að það blasi við að skapa þurfi samtakamátt ríkis, sveitarfélaga og rekstraraðila um sölu á íslensku eldsneyti til að orkukerfisskiptin megi skapa sem mestan heildarávinning fyrir þjóðina. Til að svo megi verða með skilvirkum hætti dugar ekki vel að stjórnvöld líti svo á að þeirra hlutverk sé að nálgast málaflokkinn af meintu hlutleysi - við erum að tala um kerfislæga breytingastjórnun og þörf fyrir fordæmislausa aðkomu ríkis og sveitarfélaga með markvissum hætti.

Hraði orkukerfisbreytinga í samgöngum á síðustu öld takmarkaðist fyrst og fremst við framboð ökutækja til umhverfismildari samgangna sem gátu tryggt það ferðafrelsi og samgönguöryggi sem markaðurinn gerði kröfu um. Og þótt tæknin hafi verið til staðar hvað ökutækin varðar var dreifikerfi fyrir eldsneytið ekki til staðar. Lengi vel var vítahringurinn stóra fyrirstaðan - að dreifikerfið batni ekki nema ökutækjum fjölgi og að ökutækjum fjölgi ekki nema að dreifikerfið batni. Gott og vel, svo kom að því vítahringurinn var rofinn með fjöldaframleiðslu á  tvíorkubílum, metan/bensínbílum. Á slíkum bílum er ferðafrelsi með engu skert enda á ökumaður val um að aka á metani einu og sér eða á bensíni einu og sér ef á þarf að halda - tveir eldsneytisgeymar. Eftirspurn eftir þessum ökutækjum eykst hratt um þessar mundir í heiminum eða um 2,5-3 milljónir ökutækja á þessu ári. Flestir bílaframleiðendur heims framleiða metan/bensínbíla í dag. Og fjöldi ökutækja sem nýtir metan eldsneyti í akstri á Íslandi hefur tvöfaldast á þessu ári og enn meiri aukning fyrirsjáanleg.

Á Íslandi er ástæða til að ætla að viðspyrna breytinga frá olíufyrirtækjum sé minni en víðast hvar í heiminum. Ein ástæðan er sú að olíufélögin byggja afkomu sína að stækkandi hluta á vörusölu og þjónustu sem tengist ekki orkukerfi ökutækja nema að því leiti að orkusalan tryggir reglubundna komu neytenda inn á þjónustustöðvarnar. Nú er það reyndar svo að á Íslandi er þjónustunet olíusölunnar með ólíkindum þétt og miklu hefur verið til kostað í þeim efnum á síðustu tíu árum. Stór hluti þess kostnaðar á eftir að skila sér til olíufélaganna og þarf að geta gert það ef horfa á til þeirra með væntingar og kröfur um að þau beri að stærstum hluta kostnaðinn af uppbyggingu á nýrri  þjónustu fyrir umhverfismildara eldsneyti. Ávinningur samfélagsins er það mikill af stóraukinni notkun á innlendu og endurnýjanlegu eldsneyti að það ætti að vera ósk okkar allra að ábyrg og stefnumiðuð aðkoma hins opinbera verði skýr, fjárhagslega hvetjandi og markviss.

 Sjá allt um metan eldsneyti

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Takk fyrir þessi góðu svör.

Kær kveðja frá Eyjum.

Helgi Þór Gunnarsson, 9.11.2010 kl. 15:26

2 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Þetta er mjög áhugavert blogg hjá þér, Einar, og það er full ástæða til bjartsýni um gang þessarra mála hér á landi í næstu framtíð, tel ég. Ég vona bara, að þeim verkstæðum fjölgi, þar sem við, bílaeigendur getum látið breyta eldneytiskerfum vagna okkar og líka geta veitt okkur alla nauðsynlega þjónustu og viðhald.

Með góðri kveðju, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 9.11.2010 kl. 16:50

3 Smámynd: Einar Vilhjálmsson

Takk fyrir þetta Helgi og Kristján.

Fyrirtækin eru þrjú í dag sem bjóða uppfærslu á bílum - sjá hér: http://metan.is/Breyting-bila---uppfaersla/

Rétt að hafa í huga varðandi kostnaðinn við að uppfærsla bíl , algengt 380-500 þús kr, að búnaðinn( íhlutina) er hægt að flytja yfir á annan bíl síðar eða selja sér ef því er að skipta. Þar fyrir utan þykir næsta víst að uppfærður bíll muni seljast mun betur í framtíðinni og við hærra verði en hann gerði ella ef hann getur aðeins gengið fyrir bensíni - þannig að hér er um verulega búbót að ræða í ýmsum skilningi. Ég á vona á því fljótlega  að eitthvað kortafyrirtæki sinni þeirri grænu og samfélagslega ábyrgu þjónustu að flytja sjálfvirkt uppsafnaða inneign vegna metanviðskipta inn á uppfærslulán sem í boði er þannig að fjölskyldur þurfi ekki að leggja út neitt reiðufé og en njóti strax fjárhagslegs ávinnings í formi lægri eldsneytiskostnaðar.  Sjá fyrra blogg um hugmyndina Bestu-Borgar-Kort.

Einar Vilhjálmsson, 10.11.2010 kl. 01:13

4 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Helgi Þór Gunnarsson, 10.11.2010 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einar Vilhjálmsson

Höfundur

Einar Vilhjálmsson
Einar Vilhjálmsson

Mottó: Efling hins megnuga sjálfs.                   
e.vilhjálmsson@gmail.com
S. 786-1020
Mannskepnan er mögnuð vera, man í sanskrít merkir hugur. Læt það versta alveg vera, veit þá mér ei brestur dugur. 081008

Nýjustu myndir

  • Mynd sem breytti Vietnamstríðinu
  • kim phuc phan thi 1 0f7e31f4825f4b6395b37744b3cc3264
  • 52419989986 32debd4cfa k (1)
  • 100 metan
  • Þrautseigja Shutterstock 613401872

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband