Katrín Jakobsdóttir stóð sig vel á RÚV í kvöld , 5-7% slær mig sem mikið óréttlæti frá þjóðinni.

Ef rétt reynist að mælt fylgi VG í skoðanakönnunum (5-7%)  verður útkoman flokksins í kosningunum er vart hægt að segja annað en að þakklæti þjóðarinnar  sé lítið fyrir að taka við stjórn þjóðarbúsins á tíma þegar fyrirsjáanlegt var að kaupmáttur  almennings og framkvæmdageta í  landinu drægist meira saman milli kjörtímabila en dæmi  var um í sögu lýðveldisins . Og ekki hvað síst í ljósi þess að flestum ber saman um að framganga  VG í þinginu fyrir hrun bankanna og kollsteypu efnahagslífsins, hafi verið þess eðlis að þeim verði síst um það kennt hversu áhrifin urðu mikil á okkar samfélag við hrun hins alþjóðlega fjármálakerfis.

Kjósendum úr öllum flokkum ber jafnframt saman um það að framganga VG í stjórnarandstöðu á þessari öld hafi verið kröftug og umfangsmikil á flestum sviðum og jafnvel einstaklega svo miðað við stærð þingflokksins.  Þá hafa skörungar allra flokka viðurkennt að vart verði á marga hallað þótt staðhæft sé að Steingrími J. Sigfússyni hafi verið einn allra virkasti þingmaður í sögu Alþingis  fram til þessa dags – jafnan vel undirbúinn, rökfastur og fylgin sér. Margt af því sem hann barðist fyrir og benti á á sviði efnahags-og fjármála  á árunum fyrir hrun reyndist það mikil innistæða fyrir að andstæðingar hans eiga í dag fátt til andsvars en segja: „ Stundum ratast kjöftugum satt orð á munn“.

Skammdrægt er minni kjósenda og refsingin grimm. Eitt er að stökkva inn í eldhaf  óforvarandis og slökkva elda sem umliggja fólk  þegar við blasir að hættan er mikil. Það kann að vera borgaraleg skylda okkar allra að gera svo en þó alls ekki undir öllum kringumstæðum.  Það verður ekki af þingflokki VG tekið að hann brást við með þeim hætti við hrun efnahagslífsins – stökk inn í eldhafið. Sumir brenndu sig í atganginum og þurfti frá að hverfa fyrr en vænst var. Aðrir létu sig hafa það, svo lengi sem hjálp var við komandi, þótt dreyrinn stykki úr holdinu.  Sárin gróa en minningin lifir um að hafa komið til bjargar og bjargað því sem bjargað varð.  Að koma úr slíkri hjálparför og vera ásakaður um að vera brennuvargur er annað.  Svo virðist  sem tekist hafi að særa Steingrím J. með slíkum öfugmælum. Sagan mun þó geyma önnur og öfundsverðari ummæli um hann og þingflokkinn sem glímdi í fjögur ár.   VG eru þó ekki atgervislausir í brúnni enda heldur Katrín Jakobsdóttir um stýrið og stóð sig vel á RÚV.  

Ég hef ekki verið talinn sérstakur vinstrimaður í pólitík en verð að viðurkenna að 5-7% fylgi til VG í komandi kosningum slær mig sem mikið óréttlæti frá þjóðinni.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Enn fær Katrín athugasemdalaust að guma sigáf því að atvinnuleysi hafi minnkað.  Atvinnuleysi hefur minnkað vegna þess að fólk hefur flutt úr landi, farið í skóla, ráðið sig tímabundið í átaksverkefni (atvinnubótavinna) og er komið á framfærlu sveitarfélaganna. Störfum hefur hinsvegar ekkert fjölgað sem er skandall þar sem tækifærin voru næg. 

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 16.4.2013 kl. 10:11

2 Smámynd: Guðmundur Böðvarsson

Lygarnar og Svikin fóru með það...

Guðmundur Böðvarsson, 16.4.2013 kl. 10:15

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hjá mér stendur upp úr að Vinstri grænir voru stjórnmálaflokkur með pólitísk marmið þegar gengið var til kosninga.

Stóð af mikilli einurð gegn öllum fyrirætlunum í þá veru að sækja um aðild að ESB. Fékk feikn af atkvæðum frá sjálfstæðismönnum sem treystu Steingrími og Katrínu betur í því máli en eigin forystu.

Vissi forysta V g og þ.m.t. Katrín ekkert um hrunið í aðdraganda kosninga vorið 2009 og er það ástæða þess að þau hétu þessu?

Man ég það ekki rétt að landsfumdur V g hafi samþykkt einum rómi að innkalla kvóta og gefa strandveiðar frjálsar og reisa þar með strandbyggðir Íslands úr rústum eymdar og vonleysis?

Skiptir engu, engu, engu máli hvað stjórnmálamenn segja, hvað stjórnmálaflokkar segjast standa fyrir þegar þeir tala við kjósendur?

Og er það bara lofsvert þegar fyrsta verk ríkisstjórnar eftir hrum álíka því sem þú dregur fram er það að kveikja elda í samfélaginu?

Fengu þessir forystumenn umboð til að RÍKJA yfir Íslandi með einræðistilburðum?

Árni Gunnarsson, 16.4.2013 kl. 11:30

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú veizt það, Einar minn ágæti, að VG er nú formlega orðinn ESB-flokkur, rétt í tæka tíð áður en Össur stökk sjálfur af Össurarumsóknar-lestinni!!!

VG-forystan var líka forhert gegn réttindum og hag þjóðarinnar í Icesave-málinu. Úrskurður réttlætisins var: Íslenzka ríkinu bar ekkert að borga, jafnvel ekki málskostnaðinn fyrir EFTA-dómstólnum, og jafnvel var það staðfest þar, að það hefði ekki einu sinni vrið leyfilegt að setja ríkisábyrgð á Icesave-innistæðurnar, af því að það hefði skekkt samkeppnisstöðu banka á EES-svæðinu.

Það er Steingrímur, sem er að keyra VG niður í ekki neitt. Tilraunin með þann flokk mistókst vegna svika þess foringja í þessum þungvægu málum. Nú geta vinstri menn snúið sér að Framsóknarflokki, Sturlu Jónssyni, Alþýðufylkingunni eða Regnboganum (og alls ekki ESB-hnjáliðaveikra Pírata!).

Með beztu kveðju,

Jón Valur Jensson, 16.4.2013 kl. 15:27

5 Smámynd: Einar Vilhjálmsson

Takk fyrir innlitið. JV ég geri ráð fyrir að fullyrðing þín um að VG sé formlega orðinn ESB-flokkur grundvallist m.a. á túlkun þinni á orðalagi „Landsfundur VG telur að Íslandi sé best borgið utan ESB en vill ljúka aðildarviðræðum við ESB.“  Ég verð að viðurkenna að setning VG slær mig alls ekki sem nein rökvilla. Hvað þá að yfirlýsingin sé „ einhver sú afbakaðasta sem fyrirfinnst“ eins og GS skrifar á vef Fullveldisvaktarinnar  25.02.2013 sem þú vísar til.   Í mínum huga vísar yfirlýsingin til mikilvægra eiginleika við stjórnun og hagsmunagæslu . Vilja til að rannsaka tilgátu sem maður telur sig hafa rétta svarið við órannsakað.   

Við erum eldri en svo JV að vita að eitt er fyrir stjórnvald að hafna að fara samninga-og sáttaleið við annað stjórnvald með beinum hætti. Annað að gera það vegna niðurstöðu  í þjóðaratkvæðagreiðslu um málaflokkinn, sem stjórnvaldi  var gert að viðhafa, vegna stjórnarskrárvarins möguleika fyrir þjóðina til að koma að málum. Á vakt VG unnum við Íslendingar  Icesave-málið með mildilegustu eftirstöðvum gagnvart alþjóðasamfélaginu sem völ var á  það bestu menn fá séð. Persónur og leikendur á hinu pólitíska sviði sem að þessum málum komu beggja vegna borðsins og frá báðum hliðum eru ekki beint nýgræðingar í pólitík og geta speglað klækjapólitík ef á þarf að halda og hagur lands og þjóðar liggur við. Orðin „ég nenni þessu ekki lengur“ sögðu mér sitt.  Já, sumir fórnuðu meðvitað persónulegum hagsmunum sínum fyrir þjóðarhag.

Einar Vilhjálmsson, 17.4.2013 kl. 00:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einar Vilhjálmsson

Höfundur

Einar Vilhjálmsson
Einar Vilhjálmsson

Mottó: Efling hins megnuga sjálfs.                   
e.vilhjálmsson@gmail.com
S. 786-1020
Mannskepnan er mögnuð vera, man í sanskrít merkir hugur. Læt það versta alveg vera, veit þá mér ei brestur dugur. 081008

Nýjustu myndir

  • Mynd sem breytti Vietnamstríðinu
  • kim phuc phan thi 1 0f7e31f4825f4b6395b37744b3cc3264
  • 52419989986 32debd4cfa k (1)
  • 100 metan
  • Þrautseigja Shutterstock 613401872

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband